Ársskýrsla UMFÞ 2024

Í ársskýrslu félagsins er stiklað á stóru um það sem fram fór starfsárið 2024 og endurspeglar skýrslan fjölbreytta starf félagsins. Þrátt fyrir að verkefnin séu ólík er það markmið stjórnar að þjónusta og styðja við iðkendur sína, þjálfara, sjálfboðaliða, foreldra, stuðningsmenn, starfsfólk og alla þá er koma að starfsemi félagsins. Þannig verður starf þeirra sterkara og öflugra samfélaginu hér til góða.

Barna – og unglingastarf

Árið 2024 hélt aðalstjórn félagsins úti barna – og unglingastarfi í heilsársgreinunum knattspyrnu, sundi og rafíþróttum. Iðkendum fjölgaði þegar leið á árið í takt við fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Sjáum við sérstaklega fjölgun í hópi yngri barna og leikskólahópa en uppselt var á vetrarnámskeið í íþróttaskóla. Félagið heldur úti knattspyrnuæfingum í blönduðum 8. flokki, 7. flokki drengja og 7.flokki stúlkna, 6. flokki drengja, sameinuðum 6. og 5. flokki stúlkna og 4.flokki drengja. Í sundi var haldið úti æfingum fyrir börn í 1.-5.bekk og hefur sundið aftur náð að festa sess sinn í starfsemi félagsins eftir að greinin hafði verið lögð niður árið 2022 enda er þar mikið og öflugt starf unnið. Breytt var um stefnu í rafíþróttum og ákveðið að bjóða uppá æfingar fyrir 8.- 1.bekk í framhaldsskóla en hefur deildin ekki náð þeim uppgangi sem vonast var til. Þó hefur verið unnið þar gott starf og vonir er bundnar við að hægt verði að efla starfið en frekar á næsta ári.

Æfingariðkun barna í sveitarfélaginu þarf að geta hafist fyrr á daginn. Með farsæld barna að leiðarljósi og ákalli eftir meiri samveru fjölskyldunnar verður félagið að geta boðið uppá æfingar í samfellu við grunnskóla fyrir yngstu iðkendurna. Alltaf er verið að vinna að því að börn geti æft fyrr á daginn en hefur það oft reynst áskorun og vonast er til að hægt sé að vinna markvisst að því verkefni í samstarfi við skóla og sveitarfélag.

Davíð Hansen Georgsson og Pétur Samúelsson létu af störfum fyrir félagið á árinu og þökkum við þeim fyrir samstarfið.

Landsmót 50+

Árið 2024 var Landsmót 50+ haldið í Vogum helgina 7.-9.júní. Mikil stemmning var í bænum og var þátttaka á mótinu góð en var þetta stærsti íþróttaviðburður sem haldin hefur verið í Vogum. Fjölmargar greinar voru í boði, fjölbreyttir viðburðir og götubitahátíð svo eitthvað sé nefnt. Svona stórt mót krefst mikills undirbúnings en einnig fer mikil vinna í framkvæmd þess. Sendum við öllum þeim sjálfboðaliðum og starfsfólki sem vann á og í kringum mótið okkar innilegustu þakkir fyrir þeirra framlag. Var það ákveðið að þeir sem sinntu sjálfboðaliðastörfum á mótinu fengju að gefa sitt vinnuframlag til félagasamtaka í sveitarfélaginu og fengu því fjölmörg félög styrk frá sjálfboðaliðum. Viljum við einnig senda stjórn og starfsfólki UMFÍ þakkir fyrir það traust sem félginu var sýnt þegar ákvarðað var um að mótið yrði haldið hér í Vogum.

Knattspyrnudeild

Meistaraflokkur Þróttar í knattspyrnu stóð sig vel í sumar undir stjórn Gunnars Más Guðmundssonar og Hreins Inga Örnólfssonar. Spilaði liðið í 2.deild í fyrra sumar og var hársbreidd frá því að komast upp um deild eftir að hafa verið spáð 7.sæti í deildinni. Liðið endaði í 3.sæti með 42 stig, aðeins 1 stigi á eftir liði Völsungs. Rekstur knattspyrnudeildar var erfiður og hefur velta deildarinnar lækkað hratt eða um 30% á tveimur árum. Er það mikið áhyggjuefni og á aðalfundi deildarinnar sem fór fram 24.febrúar s.l var ákveðið að taka fyrir málefni deildarinnar á aðalfundi félagsins. Gunnar Már þjálfari meistaraflokks lét af störfum í byrjun árs 2025. Einnig lét Stefán Sæbjörnsson af störfum sem formaður deildarinnar og þökkum við þeim báðum fyrir gott samstarf og þeirra framlag til félagsins.  

Körfuknattleiksdeild

Meistaraflokkur Þróttar í körfuknattleik átti gott tímabil og komst liðið í 8.liða úrslit í næst efstu deild. Ákvað stjórn körfuknattleiksdeildarinnar hinsvegar að draga liðið úr keppni daginn fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni. Þrátt fyrir gott gengi innan vallar þá var reksturinn erfiður þar sem félagið þurfti að spila heimaleiki sína í Sandgerði og Njarðvík þar sem íþróttahúsið í Vogum er ekki löglegt fyrir keppnisleiki. Á síðasta aðalfundi deildarinnar var ákveðið að senda ekki lið til leiks og er deildinni því sjálfhætt. Skuldir deildarinnar í dag eru 1.1 milljón króna. Þökkum við fráfarandi stjórn, þjálfurum og leikmönnum fyrir samstarfið og þeirra framlag til félagsins.

Önnur verkefni

Brennó æfingar fyrir konur 18 ára og eldri fóru fram á árinu líkt og áður og var aðsókn góð. Mikil stemmning var í hópnum sem æfði tvisvar sinnum í viku og tóku stelpurnar meðal annars þátt á Landsmóti 50+ þar sem þær gerðu sér lítið fyrir og unnu mótið.

Æfingar í Vogaþreki fóru fram í byrjun árs en því miður varð raunin sú að fella þurfti niður æfingar eftir sumarið þar sem ekki nægjanleg þátttaka var til að halda úti starfsemi. Engin styrktaræfing fór fram í desember eins og hefð var fyrir.

Í haust var ákveðið að endurvekja badminton æfingar og fóru æfingar fram einu sinni í viku þar sem tímarnir eru opnir öllum og þeim að kostnaðar lausu. Góð mæting hefur verið og ákveðið var að halda áfram með þetta fyrirkomulag á nýju ári.

Minningarsjóður Hróars stækkar og styrkir fjölmörg verkefni árlega. Alltaf er tekið við umsóknum í sjóðinn og er það tilgangur sjóðsins að styrkja efnaminni iðkendur í barna- og unglingastarfi félagsins. Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst hlupu fimm hlauparar til styrktar Minningarsjóðsins og þökkum við þeim kærlega fyrir þeirra framlag.

Reynir Brynjólfsson var sæmdur gullmerki félagsins á árinu en hann hafði alla tíð verið mikill Þróttari og einn af okkar helstu stuðningsmönnum. Reynir lést í júlí og minnumst við hans með mikilli væntumþykju og mun minning hans lifa áfram með okkur.

Rekstur og fjárhagur

Rekstrarniðurstaða 2024 var tap uppá 532.547kr. Félagið hefur fundið verulega fyrir efnahagsástandinu, náttúruhamförum í Grindavík og því að styrktaraðilum félagsins hefur fækkað á síðasta ári. Lækkun hefur orðið á styrk frá Sveitarfélaginu Vogum til Ungmennafélagsins Þróttar undanfarin ár. Kostnaður við rekstur íþróttafélaga hefur hækkað. Iðkendum og flokkum hefur fjölgað sem leiðir til frekari útgjalda og þrátt fyrir aukningu í greiddum æfingagjöldum þá er það ekki nóg til að brúa bilið. Aðstöðuleysi í Sveitarfélaginu Vogum kallar á það að meistaraflokkar og yngri flokkar þurftu að leigja keppnis- og æfingaaðstöðu utan Voga. Ferðakostnaður hefur hækkað og mótsleikjum fjölgað.

 Félagið hefur sýnt ráðdeild og skynsemi í rekstri og gætt þess að sníða stakk eftir vexti. Þegar farið er yfir ársreikning félagsins á aðalfundi hvetjum við alla félagsmenn til þess að kynna sér reikninginn vel.

Helstu ástæður þess að velta félagsins hefur hækkað á milli ára er vegna Landsmóts 50+ og að aðalstjórn félagsins tekur nú við öllum þjónustustyrk frá sveitarfélaginu sem áður fór einnig inn á einstaka deildir. UMFÍ hlaut styrk frá stjórnvöldum til uppbyggingar landsmótsstaða árið 2024 upp á 12 milljónir króna. Fjórar af þeim milljónu runnu til UMFÞ vegna Landsmóts 50+.

Það liggur fyrir að félagið þurfi að lækka þjónustustig, fækka kostnaðarsömum verkefnum og hagræða í rekstri. Lottógreiðslur hafa lækkað all verulega og á það einnig við um aðildarstyrk KSÍ sem hefur runnið í barna – og unglingastarf félagsins.

Bakhjarlar félagsins eru mikilvægir og án þeirra væri hægt að skella í lás. Kunnum við Sveitarfélaginu, fyrirtækjum, einkaaðilum og öðrum styrktaraðilum miklar þakkir fyrir stuðninginn.

Rekstrarumhverfi er þungt og erfiðara reynist að afla fjármagns. Skipulagt íþróttastarf gegnir fjölþættu hlutverki í íslensku samfélagi og má meðal annars nefna það mikilvæga forvarnarstarf sem þar fer fram fyrir börn – og ungmenna auk þess sem það stuðlar að bætri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu þeirra.  UMFÞ er þar engin undantekning og er félagið einn af hornsteinum samfélagsins hér í Vogum.

Aðild að Ungmennafélagi Íslands og lottótekjur

Á sambandsráðsþingi UMFÍ 2023 var lottóúthlutunarreglum breytt og tóku þær gildi um mitt ár 2024. Er það raunin að lottótekjur til félagsins hafa dregist saman eftir þessar breytingar en þær renna í barna- og unglingastarf félagsins og minningarsjóð Hróars. Þarf félagið að leita leiða til að bæta upp þann tekjumissi á nýju ári. Á sama tíma og farið var í breytingar á lottóúthlutunarreglum voru einnig settar á lagirnar átta svæðisstöðvar íþróttahéraða þar sem tveir starfsmenn hófu störf hér á Suðurnesjum í ágúst. Samstarf við starfsmenn þar hefur verið gott.

 Íþróttabandalag Suðurnesja sótti einnig um aðild að UMFÍ sem samþykkt var á ársþingi héraðsins 2024. Hafði það þær breytingar í för með sér að UMFÞ er ekki lengur með beina aðild að UMFÍ og ber þá Íþróttabandalag Suðurnesja ábyrgð á að koma fram fyrir hönd félagsins á þingjum og sambandsráðsfundum UFMÍ hér eftir. Mun þetta að vissu leiti draga úr samskiptum félagsins við UMFÍ en hafa samskipti milli okkar hafa ávalt verið góð.

Samskipti

Auk þess að fjárhagsrekstur félagsins hefur þyngst, hefur það einnig varpað skugga á starf félagsins að Ungmennafélagið Þróttur þurfti að leita til embætti Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs á síðasta ári vegna samskiptavandamála við samstarfsaðila. Stjórnarliðar og sjálfboðaliðar hafa hætt störfum vegna málsins og hefur þetta haft mikil áhrif á alla starfsemi félagsins. Fyrir félagið er það forgangsatriði að bæta þessi samskipti sem fyrst og að þeim geti lokið á sem farsælastan hátt með faglegri handleiðslu svo að sagan muni aldrei endurtaka sig.

Lokaorð

Að baki er stórt og viðburðaríkt ár hjá félaginu og gaman er að líta til baka og sjá litlu og stóru sigrana sem félgið hefur áorkað á árinu. Þeim hefði ekki verið náð án okkar frábæru sjálfboðaliða sem starfa fyrir félagið og leggja dag og nótt í að skipuleggja og halda utanum ýmis verkefni. Fólk sem sinnir sjálfboðaliðastörfum er búið ótrúlegum eiginleikum. Þar má nefna óeigingirni og samúð með öðrum en það eru eiginleikar sem hvetja fólk til að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum. Þurfum við öll að hjálpast að við að halda vel utanum og hlú að fólkinu okkar sem unnið hefur ötult starf í þágu félagsins gegnum árin. Þeim þarf að sýna þakklæti og skilning í þeirra störfum sem oft á tíðum eru mjög krefjandi því án þeirra væri samfélagið hér mun fátækara.

Erfitt er að sjá hvað félagið var oft í kröppum dansi í að ná endum saman eins og sjá má á ársreikningum allra deilda innan félagsins. Stærsta vandamálið okkar er tekjuvandi og á nýju ári verður það stærasta verkefni félagsins að ná jafnvægi í rekstri. Við getum ekki haldiði áfram að stækka og þróa félagið nema með bættri aðstöðu sem ýttir undir og styður við betra starf. Samfélagið í Vogum tekur hröðum breytingum og er félagið að sinna sífellt stærri og fjölbreyttari hópi iðkena á öllum aldri sem vilja nýta sér þá þjónustu sem félagið býður uppá.

 

Stjórnarliðar sem hætta núna eftir gott starf hjá félginu eru Stefán Harald Hjaltalín, Sólrún Ósk Árnadóttir, Ari Gauti Arinbjörnsson og Petra Ruth Rúnarsdóttir. Þökkum við þeim fyrir gott samstarf og þeirra framlag til félagsins.

Hægt er að nálgast ársreikning UMFÞ með því að smella á þennan hlekk: Ársreikningur UMFÞ 2024


Previous
Previous

Stjórnarfundur 194

Next
Next

Aðalfundur UMFÞ 2025