Starf Þróttar er afar mikilvægt innan samfélagsins og verður að vinna á faglegan, uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Mikilvægt er að samstarf milli íþróttafélagsins og bæjaryfirvalda sé ávallt gott og að traust ríki í öllum samskiptum. Með þjónustusamning um rekstur, afnot og umsjón íþróttamannvirkja er byggt á því trausti sem til staðar er á milli þessara einstaklinga.

Mikilvægt er að Ungmennafélagið Þróttur hafi skýra stefnu svo að allir þeir sem starfa innan félagsins stefni í sömu átt. Markmið þessarar stefnu er að vinna að bætri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu íbúa sveitarfélagsins, bjóða upp á faglega þjónustu fyrir fólk á öllum aldri þar sem allir eru velkomnir, vera leiðandi í forvarnarstarfi ungmenna, leggja sitt af mörkum til samfélagsins og byggja starfið á öruggum stjórnarháttum.

Stefnan okkar

Ungmennafélagið Þróttur Vogum rekur blómlegt og mikilvægt íþróttastarf í Sveitarfélaginu Vogar. Félagið hefur verið starfrækt frá árinu 1932 og er markmið félagsins að stuðla að eflingu hverskonar félagsstarfs og almennrar íþróttahreyfngar hjá fólki á öllum aldri.

Tilgangur félagsins er einnig að vera eitt af táknmyndum samfélagsins með fyrirmyndar framkomu, stuðla að eflingu félagsstarfs og þroska félagsmanna. Grundvöllur að starfi Þróttar er það mikilvæga sjálfboðaliðastarf sem einstaklingar innan félagsins sinna og er grunnur í uppbyggingu félagsins og því starfi sem þar fer fram. Heilbrigt og gott félagslegt uppeldi barna og unglinga er lykillinn að góðu samfélagi fyrir okkur öll og leggur Þróttur þar sitt af mörkum.