
Lög UMFÞ
Lög félagsins
Heiti og aðsetur
1. gr.
Félagið heitir Ungmennafélagið Þróttur. Heimili og varnarþing er í Sveitarfélaginu Vogum.
2. gr.
Félagið er aðili að Ungmennafélagi Íslands og er því í einu og öllu háð lögum þess og stefnuskrá.
Markmið
3. gr
Markmið félagsins er að stuðla að eflingu hverskonar félagsstarfs, sem lýtur þroska félagsmanna og heill lands og þjóðar.
4. gr.
Tilgangi sínum hugsar félagið að ná t.d. með:
a) fundum þar sem fram fara fyrirlestrar, kappræður, umræður og fleira.
b) skemmtikvöldum þar sem fram fer dans, söngur, leiklist og fleira.
c) íþróttum, bæði innanhúss og utan.
d) útivist, ferðalögum, landgræðslu og skógrækt.
e) fjölbreyttu námskeiðshaldi og að standa fyrir ýmsum framkvæmdum er best þykja á hverjum tíma.
f) því að vinna að aukinni fræðslu og forvörnum gegn vímuefnum og öðrum skaðlegum efnum.
Félagar
5. gr.
Félagi getur hver sá orðið sem æskir þess og samþykkir að gangast undir lög og skyldur félagsins og er samþykktur af stjórn. Félagar teljast virkir, styrktar eða ævifélagar.
a) Virkir félagar teljast þeir sem sækja æfingar hjá félaginu og þeir sem eru í stjórn félagsins eða gegna öðrum trúnaðarstörfum innan þess.
b) Styrktarfélagar teljast þeir sem ekki iðka æfingar en vilja vera félagar og styrkja félagið ár hvert með fjárframlagi sem aðalstjórn ákveður.
c) Allir sem náð hafa 50 ára aldri geta gerst ævifélagar. Gjald ævifélaga er ákveðin upphæð í eitt skipti fyrir öll.
6. gr.
Ef félagi er uppvís af brotum gagnvart félaginu skal hann sæta refsingu sem stjórn sker úr um hverju sinni. Ávallt skal vísa brotum til aðalstjórnar.
Skipulag félagsins
7. gr.
Félagið er myndað af einstaklingum í íþrótta- og félagsdeildum og félagsmönnum utan deilda. Félagið hefur sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili þess milli aðalfunda.
Málefnum félagsins er stjórnað af:
1) Aðalfundi félagsins
2) Aðalstjórn félagsins
Aðalfundur félagsins
8. gr.
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Skal hann haldinn eigi síðar en 1. mars ár hvert. Auglýsa skal aðalfund opinberlega, á heimasíðu og á öðrum miðlum félagsins með 2 vikna fyrirvara. Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað. Tillögum um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en 31.janúar. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.
9. gr.
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála. Kosningar skulu vera skriflegar ef þurfa þykir. Séu atkvæði jöfn skal láta hlutkesti ráða.
Dagskrá aðalfundar
10. gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:
1) Fundarsetning
2) Kosning fundarstjóra og fundarritara
3) Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram
4) Skýrsla aðalstjórnar lögð fram um starfsemi og framkvæmdir á liðnu ári
5) Endurskoðaðir reikningar liðins árs lagðir fram til umræðu og samþykktar
6) Lagabreytingar
7) Kosning formanns
8) Kosning 4 annarra stjórnarmanna
9) Kosning 2 varamanna
10) Kosning nefnda
11) Ákveðið félagsgjald og ævifélagsgjald
12) Önnur mál
Aukaaðalfundur félagsins
11. gr.
Aukaaðalfund félagsins má halda ef aðalstjórn álítur þess þörf eða ef ¼ atkvæðabærra félagsmanna á aðalfundi félagsins óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið fundarefni það sem ræða á. Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað skv. 8. gr. þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur.
Atkvæðagreiðslur, kjörgengi og félagsgjöld
12. gr.
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða tillögur til breytinga á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.
Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað. Séu atkvæði jöfn við stjórnarkjör skal kosning endurtekin. Verði atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.
13. gr.
Allir skuldlausir félagsmenn 16 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa, tillögurétt, atkvæðisrétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.
Aðalstjórn, verkefni
14. gr.
Aðalstjórn félagsins hefur yfirumsjón með allri starfsemi félagsins og ber að efla félagið og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eigum félagsins og markar stefnu þess í meginatriðum. Stjórn félagsins setur starfsreglur fyrir deildir og aðildarfélög.
Aðalstjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem kemur fram fyrir hennar hönd í ýmsum málum sbr. ráðningarsamning.
Ársreikningur skal alltaf unnin af löggildum endurskoðanda.
15. gr.
Aðalstjórn félagsins skipa 5 menn auk 2 varamanna. Stjórnarmenn skipta með sér verkum þannig: Varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðastjórnandi. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi.
Stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að helmingur stjórnarmanna og varamanna sé í kjöri á hverjum aðalfundi.
16. gr.
Allir kjörnir stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu sitja stjórnarfundi. Stjórnarmaður sem ákveður að hætta í stjórn á tímabilinu skal segja af sér skriflega. Boði aðalmaður í stjórn ekki forföll á stjórnarfundi og mæti ekki á þrjá stjórnarfundi í röð skal varamaður taka sæti hans og næsti kjörni fulltrúi taka sæti varamanns.Varamenn hafa ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum nema þeir sitji sem aðalmenn.
Ef stjórnarmaður hættir störfum á fyrra ári kjörtímabils skal á næsta aðalfundi kjósa stjórnarmann til tveggja ára í hans stað.
Viðurkenningar, heiðursmerki
17. gr.
Val á íþróttamanni ársins skal fara fram í lok hvers árs og krýning fara fram eigi síðar en í lok janúar. Hver deild tilnefnir 1 fulltrúa og leggur fram afrekaskrá máli sínu til stuðnings. Aðalstjórn félagsins velur síðan einn úr tilnefningunum sem íþróttamann ársins það árið. Sá aðili sem valinn er íþróttamaður ársins hlýtur til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar. Allir sem tilnefndir voru skulu hljóta viðurkenningarskjöl sem staðfesta tilnefninguna.
Stofnun nýrra deilda
18. gr.
Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra deilda innan félagsins, skal aðalstjórn taka þær til athugunar. Samþykki aðalstjórn slíka ósk, skal hún sjá um undirbúning fyrir starfsemi greinarinnar, samningsgerð og fleira.
Fundir yfirþjálfara deilda og aðalstjórnar
19. gr.
Vegna smæðar félagsins eru stjórnarmeðlimir tengiliðir í deildir félagsins svo málefni deilda eru rædd á fundum aðalstjórnar sem og aðalfundi félagsins.
20. gr.
Aðalstjórn félagsins skal eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári hverju halda fundi með yfirþjálfurum deilda þar sem hún leggur fram yfirlit um helstu verkefni sín. Yfirþjálfarar deilda skulu jafnframt skýra aðalstjórn frá starfsemi deildanna.
Foreldrafélög
21. gr.
Foreldrafélög sem starfrækt eru innan hverrar greinar skulu halda aðalfund ár hvert. Skal hann haldinn fyrir 1.febrúar og skal til hans boða með minnst 5 daga fyrirvara og auglýsa hann á áberandi stöðum í sveitarfélaginu. Allir lögmætir félagar 16 ára og eldri hafa kjörgengi, málfrelsi og atkvæðisrétt á aðalfundi foreldrafélags. Dagskrá aðalfundar foreldrafélaga skal vera með sama sniði og lýst er í 10. grein. Vanræki foreldrafélag að halda aðalfund á lögákveðnum tíma skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
Samráðsnefnd
22. gr.
Samráðsnefnd skal, ef hægt er, vera starfrækt innan félagsins. Í henni skulu eiga sæti 2 stjórnarmenn úr stjórn hvers starfandi foreldrafélags, 2 stjórnarmenn úr aðalstjórn, 1 þjálfari úr hverri grein og framkvæmdastjóri. Samráðsnefnd er ætlað að fjalla um þau verkefni sem fyrir liggja hjá hverju foreldrafélagi, fjáraflanir og hverskonar sameiginleg verkefni. Stærri málum skal vísa til aðalstjórnar til umfjöllunar og samþykktar.
Fjáraflanir
23. gr.
Á fundum aðalstjórnar með yfirþjálfurum og formönnum foreldrafélaga skal tekin ákvörðun um að einstökum deildum verði veitt leyfi til fjáröflunar í nafni félagsins og ákveðin skipting ágóða af þeirri fjáröflun sem félagið í heild stendur að.
Spjaldskrár og reikningsár
24. gr.
Reikningsár félagsins skal vera 1.1 til 31.12. ár hvert.
Úrsagnir, eignir, félagaslit
25. gr.
Úrsagnir skal senda skriflega til framkvæmdastjóra eða aðalstjórnar UMFÞ. Öllum skyldum verður að vera fullnægt áður en úrsögn kemur til greina.
Búningur og merki félagsins
26. gr.
Merki félagsins er kringlótt með hvítum grunni og appelsínugulri rönd á jaðrinum. Merkinu er skipt í fjóra jafna fleti sem innihalda eitt tákn hver í svörtu og bláu. Opin bók, merkir menningu, viti, merkir bókina Vitinn, fjallið Keilir, merkir staðsetningu félagsins og maður að stinga sér til sunds, merkir íþróttaiðkanir félagsins.
Keppnislitir félagsins skulu vera: Ráðandi appelsínugulur, svartur, hvítur og blár.
Lagabreytingar
27. gr.
Engu má breyta í lögum þessum nema á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna sbr. 12. gr. Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 14 dögum fyrir aðalfund félagsins.
Gildistaka
28. gr.
Lög þessi voru lögð fyrir aðalfund UMFÞ 27. febrúar 2020 og samþykkt.
Lög þessi öðlast gildi þegar þau eru samþykkt á aðalfundi eða aukaaðalfundi og eru undirrituð af stjórn félagsins. Jafnframt falla eldri lög úr gildi. Lögin þurfa staðfestingar ÍSÍ og UMFÍ.