Foreldrahandbók

Í foreldrahandbókinni er farið yfir helstu atriði sem snerta foreldra iðkenda UMFÞ.

Hér má finna upplýsingar um hvert á að leita innan félagsins vegna ýmissa mála
ásamt ábendingum um hvernig foreldrar geta komið að starfi félagsins.

Ef frekari spurningar vakna er hægt að leita til okkar, skrifstofa Þróttar er staðsett í Vogabæjarhöllinni (Íþróttamiðstöðinni) við Hafnargöru 17.
Viðtalstímar á skrifstofu eru alla miðvikudaga frá 9:30 til 12:00.

Hægt er að hringja í síma 892-6789 eða senda tölvupóst á throttur@throttur.net til að fá svör
við fyrirspurnum öllum svörum er svarað eins skjótt og auðið er innan hefðbundins vinnutíma.

ATH!
Fyrirspurnum er ekki svarað á samfélagsmiðlum.
Þróttur notar samfélagsmiðla eingöngu til að auglýsa viðburði og segja frá starfi félagsins.

  • Skráning iðkanda fer fram á heimasíðu Þróttar www.throtturvogum.is í gegnum skráningarkerfið okkar.

    Með skráningu er iðkandi orðinn meðlimur í UMFÞ og getur byrjað æfingar.

    Í upphafi tímabils er hægt að prófa æfingar í eina viku án skráningar, tvær til þrjár æfingar. Þegar æfingatímabilið er hafið má iðkandi mæta í eina viku áður.

    Iðkandi sem ekki er skráður fær ekki að keppa á vegum félagsins.

    Samskipti milli foreldra og þjálfara sem og milli foreldra og félagsins fer fram í gegnum tölvupósta. Því er mikilvægt að foreldrar skrái virkt netfang þegar barn þeirra er skráð til leiks.

    Hægt er að greiða æfingagjöld í heimabanka. Í upphafi starfsárs er hægt að skipta greiðslum í 9 til 11 gjalddaga frá 1. sept. – 1. ágúst. Eftir það er hægt að dreifa greiðslum þannig að síðasti gjalddagi verði eigi síðar en 1. ágúst

  • Upplýsingar um þjálfun og æfingartíma er að finna á heimasíðu félagsins. Þar eru allar breytingar tilkynntar á www.throtturvogum.is Einnig er hægt að hafa samband við þjálfara eða skrifstofu.

    Á heimasíðu félagsins sem og hjá þjálfara er einnig hægt að fá upplýsingar um stefnu félagsins varðandi þjálfun í öllum flokkum. Lögð er rík áhersla á að hafa samræmdan ramma milli flokka þannig að starf verði eins ánægjulegt og árangursríkt og hægt er.

    Þróttur hefur skýra stefnu varðandi einelti, jafnrétti og forvarnarmál. Lögð er rík áhersla á að foreldrar hafi strax samband við viðeigandi aðila (þjálfara eða skrifstofu) ef einhver atriði koma upp hvort sem það eru samskipti við þjálfara, iðkendur eða aðra sem foreldrar eru óánægðir með

  • Forráðamaður þarf að láta skrifstofu vita fyrir mánaðarmót að iðkandi hyggist hætta. Það er mikilvægt að það dragist ekki því laun þjálfara eru greidd eftir fjölda iðkenda hverju sinni.

    Best er að láta skrifstofu vita skriflega með því að senda skilaboð þess efnis á throttur@throttur.net, uppsögn tekur gildi næstu mánaðarmót frá dagsettningu uppsagnar

  • Hlutverk foreldra er afar mikilvægt sérstaklega hjá yngstu flokkunum. Það er grundvallaratriði að börnin okkar skemmti sér vel og hafi gaman af íþróttum.

    Áhersla á afreksmannaíþróttir eykst eftir því sem ofar dregur en í yngstu flokkunum má aldrei vera þrýstingur á að stunda íþróttir aðeins til að ná árangri. Ánægjan verður að koma fyrst á þessum árum, afreksmannahugsun kemur eftir því sem iðkendur verða eldri.

    Foreldrar geta aðstoðað við starf félagsins og flokkanna á margvíslegan hátt. Það er hægt að starfa í foreldrafélagi, starfa sem liðstjóri eða fararstjóri á mótum, vinna á mótum sem Þróttur heldur, vinna að fjáröflun o.s.frv. Þessi verkefni eiga það öll sameiginlegt að gefa mikið af sér á sama tíma og þau styðja við starf félagsins og möguleika þess til að gera betur við iðkendur, börnin okkar.

    Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

    • Berum virðingu fyrir starfi þjálfara og leyfum þeim að sinna því.

    • Gagnrýnum aldrei þjálfara þannig að iðkendur heyri til.

    • Hvetjum liðið á jákvæðan hátt en ekki einstaklinganna.

    • Mundu að það er barnið þitt sem er að taka þátt og keppa – ekki þú.

    • Sýndu alltaf stuðning sama hvernig gengur – mundu að það byggir upp!

    • Reyndu að aðstoða við starfið eins og kostur er, það geta allir lagt sitt af mörkum.

    • Vertu sjálfum þér, börnunum og félaginu til sóma á leikjum og mótum.

  • Ef óánægja er með störf þjálfara skal ræða fyrst við þjálfarann í von um að hægt verði að fá lausn á málinu. Ef það skilar ekki árangri skal leita til yfirþjálfara eða skrifstofu sem reyna eftir bestu getu að leysa málin. Ef ekki finnst lausn á málinu fer málið fyrir stjórn UMFÞ.

    Ef upp kemur einelti eða vandamál í samskiptum við iðkendur þarf að tala við þjálfara flokksins. Ef það skilar ekki árangri þá er að leita til yfirþjálfara eða skrifstofu. Nánar um einelti er í eineltisstefnu UMFÞ á heimasíðu félagsins.

    Ef upp koma spurningar varðandi greiðslu æfingagjalda skal leita fyrst til skrifstofu.

    Ef erfiðleikar eru varðandi greiðslu æfingagjalda skal leita til skrifstofu þar sem hægt er að semja um greiðslu. Ef forráðamanni er ómögulegt að greiða æfingagjöld fyrir barn sitt er bent á félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga sem geta e.t.v. aðstoðað. Iðkendum er ekki vísað frá vegna tímabundinna erfiðleika með greiðslur

  • Verkaskipting hjá félaginu tekur mið af því að mikið starf er unnið af sjálfboðaliðum og starfsmenn eru fáir. Því er verkaskipting ekki eins afmörkuð og væri ef starfsmenn væru fleiri. Erfitt er því að setja niður tæmandi lista yfir verkaskiptingu og tryggja að ekki sé fleiri en einn aðili sem kemur að ákveðnum lið eða liðum.

    Gróft til tekið skiptast verk niður á eftirfarandi hátt:

    Framkvæmdastjóri:
    Sér um daglegan rekstur, stýrir fjáröflunum og samskiptum við styrkaraðila, aðra samstarfsaðila og dagleg samskipti varðandi fjármál. Situr stjórnarfundi aðalstjórar og er tengiliður vegna mála sem eru tekin fyrir þar. Öll samskipti við ÍSÍ, UMFÍ og önnur aðildarfélög fara í gegnum framkvæmdastjóra og formann.

    Yfirþjálfari:
    Er tengiliður við þjálfara, sér um breytingar leikja, fagleg stjórnun þjálfunar og ber ábyrgð á æfingaáætlunum, tryggir að aðstaða og þjálfun sé í samræmi við stefnu félagsins.

    Þjálfari:
    Heldur foreldrafund í upphafi hvers árs. Þar er farið yfir æfingatíma og mót. Þjálfarar tilkynna breytingar ef einhverjar verða á miðju tímabili.

    Stjórn:
    Fer með æðsta vald í félaginu. Vinnur að stefnumótun og ráðningu þjálfara, yfirþjálfara og framkvæmdastjóra

    Foreldrafélag:
    Aðstoðar við skipulagningu á þátttöku í stærri mótum, setur upp félagslega viðburði, vinnur að fjáröflunum fyrir iðkendur varðandi mótaþátttöku, heldur foreldrafundi með þjálfara og foreldrum reglulega til að skipuleggja viðburði og mót ásamt því að taka fyrir atriði í starfi flokks ef þarf

  • Mikill fjöldi foreldra vinnur fyrir félagið, annað hvort einstakan flokk, á einstöku móti eða innan flokksráða eða annarra stofnana félagsins. Þetta starf er félaginu og iðkendum gríðarlega mikilvægt og grunnur að því starfi sem unnið er innan Þróttar.

    Eins og áður kom fram eru nokkrar leiðir fyrir foreldra að starfa innan félagsins:

    • Vinna að fjáröflun eða félagslegum viðburði. Yfirleitt er haldinn fundur vegna skipulagningar slíks þar sem auglýst er eftir foreldrum til að starfa að þessu. Ef þú getur ekki mætt á fundinn getur þú sent póst á aðra foreldra eða þjálfara flokksins. Yfirleitt er um afmarkað starf og tíma að ræða t.d. starfa í veitingasölu, hreinsun, afhenda fjáröflunarvörur o.s.frv.

    • Vera liðsstjóri/fararstjóri á móti. Hægt er að sjá hér að neðan í hverju starfið felst. Sama gildir um þetta og fjáröflun eða félagslega viðburði, haldinn er fundur þar sem hægt er að skrá sig eða senda á foreldraráð ef þú ert tilbúin(n) að starfa við þetta.

    • Starfa í stjórn foreldrafélags UMFÞ. Stjórn foreldrafélags er skipað á aðalfundi . Stjórnin heldur utan um starf foreldra, það er ekki þar með sagt að foreldraráð geri allt sjálft heldur fær það gjarnan fleiri til aðstoðar við skipulagningu. Stór þáttur í að starfa í stjórn foreldrafélagsins er að virkja aðra foreldra í starfinu

  • Hægt er að notast við meðfylgjandi minnislista fyrir hvað fara þarf með í keppnisferðir. Að sjálfsögðu er nokkur munur á þessu eftir aldri keppenda en grunnurinn er sá sami.

    Fatnaður til skiptanna

    • Nærfatnað 4-5 stk

    • 4-5 pör af sokkum

    • Regngalla, merktan Þrótti ef til er

    • Flíspeysu

    • Handklæði

    • Tannbursta, tannkrem

    • Sundföt

    • Venjulega skó (ekki takkaskó)

    • Vettlinga, húfu

    • Bakpoka (til að geyma sundföt, smálegt dót)

    Annað:

    • Spil, bækur, blöð

    • Dýnu

    • Sæng eða svefnpoka

    • Kodda

    • Vatnsbrúsa

    Fyrir Fótbolta:

    • Takkaskó

    • legghlífar

    Fyrir Sund:

    • Sundgleraugu

    • Sundhetta

    • Sundföt

    Munið að merkja alla hluti með nafni iðkanda/síma og látið krakkana vera með þegar pakkað er svo þau viti hvar hlutirnir eru og hvað var tekið með!

  • Grúppusíður á facebook eru eingöngu fyrir þjálfara og foreldra.

    Þær eru notaðar í þeim tilgangi að miðla upplýsingum á milli þeirra sem hafa aðgang að síðunni. Hægt er að nálgast upplýsingar m.a um mótamál, félagslega hittinga og æfingatíma inná þessum síðum.

    Hafið í huga að áður en sett er eitthvað neikvætt á vegginn, heyrðu fyrst í þjálfara. Neikvæð áhrif smita útfrá sér

  • Ekki bíða með skráningar!
    Það hefur verið algengt að foreldrar bíði með skráningar til að sjá hvort næg þátttaka sé til staðar. Ekki bíða því við getum ekki skipulagt mótsferðir almennilega ef rétt tala liggur ekki fyrir. Skráið strax til leiks. Það er hlutverk þjálfara að leysa málin og þarf ekki að ræða neitt frekar inná hópsíðum eða annarsstaðar.

    Það er mikilvægt að greiða mótsgjald á réttum tíma þegar farið er á dagsmót eða önnur mót.

    Það er mikil vinna sem fer í gang þegar einhver er að gleyma sér sem bitnar á öðrum störfum hjá félaginu. Vinnan lendir á framkvæmdastjóra og þjálfurum. Það stoppar allt á þessum fáu sem eiga eftir að greiða mótsgjaldið. Þau skipti sem félagið hefur greitt keppnisgjald seint eða verið vísað frá móti vegna ógreiddra keppnisgjalda var vegna þess að foreldar gleymdu sér og fresturinn rann út.

    Sem betur fer eru fáir sauðir að finna hjá Þrótti og þetta gerist nær aldrei!

  • Stór hluti af starfi flokkanna er þátttaka á mótum. Þessi mót eru allt frá því að vera 2-3 klukkustunda löng upp í það að vera 4 daga löng og fela í sér gistingu.

    Mismunandi er fyrir hvern flokk hvernig þessu er háttað og miðast eftirfarandi upplýsingar nokkuð við knattspyrnumót.

    Fyrir hvert lengra mót er ákveðinn undirbúningur sem þarf að eiga sér stað. Nokkur atriði sem vinna þarf að eru:

    • Skipa fararstjóra sem stýrir undirbúningi fyrir mótið. Á mótsstað er fararstjóri tengiliður við mótshaldara, situr fararstjórafundi þar sem farið er yfir dagskrá móts, breytingar og önnur atriði sem upp koma

    • Það þarf að fá foreldra til að vera liðsstjóra og er fjöldi mismunandi eftir aldri iðkenda. Í yngstu flokkunum eru vanalega 2 foreldrar alltaf með hverju liði. Liðsstjórar fylgja liðum meðan á keppni stendur og sjá um að mætt sé á réttum tíma í leiki, í mat osfrv

    • Matarnefnd undirbýr mat/nesti á mótinu. Mismunandi er eftir mótum hversu mikið þarf að útvega, þetta er allt frá því að útbúa nesti fyrir daginn og kvöldhressingu til þess að útdeila nesti sem er innifalið á mótum. Nefndin sér einnig um að útvega foreldra til að aðstoða við að útbúa nesti/kvöldhressingu. Einnig sér nefndin um að útvega hluti eins og samlokugrill, kælitöskur, brúsa og slíkt

    • Ef um kostnaðarsamt mót er að ræða og foreldrafélag ákveður að farið verð í fjáröflun er hægt að skipa fjáröflunarnefnd sem sér um að ákveða hvað gert verði til fjáröflunar. Nefndin sér um eða fær aðila til að útdeila vörum sem seldar eru og tekur á móti greiðslum

    • Gott er að taka með fána Þróttar og er hægt að nálgast hann á skrifstofutíma

    • Gott er að athuga hvort foreldri í hópnum hafi möguleika á að komast í þvottavél/þurrkara á keppnisstað. Ef það er mikil rigning er gott að geta komist í slíkt

    • Athuga með kælimöguleika á keppnisstað varðandi mat

    • Hafa sjúkrakassa með og einnig upplýsingar um ofnæmi, óþol og slíkt hjá iðkendum. Það er á ábyrgð foreldra að láta liðsstjóra/fararstjóra fá slíkt

    • Norðurálsmót, Orkumót, N1 mót og Símamót eru stærri knattspyrnumótin yfir sumartímann. Í byrjun hvers starfsárs þarf að skipa foreldraráð (þrír) sem heldur utan um mótið og skipuleggur mótið í samstarfi við þjálfara. Sama gildir um aðrar greinar hjá félaginu

    • Mikilvægt er að hafa fararstjórakassann með í för. Félagið er með kassa sem inniheldur fána, samlokugrill, djúskönnur og annað sem kemur sér vel á stærri mótum. Skilyrði er að skila kassanum strax á fyrsta mánudegi eftir mót. Allt þarf að vera hreint og klárt fyrir næsta flokk. Muna skila kassa í því ástandi sem þú villt koma að honum

  • Láttu þjálfara vita af málinu og þjálfari leysir verkefnið með barninu í samráði við foreldra. Mikilvægast er að senda barnið á æfingu þrátt fyrir að barnið langi ekki að fara, það er líka mikilvægt að þú látir þjálfara vita að honum/henni langi ekki að fara í dag. Barnið fjarlægist frekar íþróttir sé látið eftir því að vera heima

  • Þú sækir um hjá Sveitarfélaginu Vogum og allar upplýsingar eru að finna á www.vogar.is Þar finnuru lög, reglur og skilyrði fyrir styrknum. Eina sem þú þarft og færð frá Þrótti er nóta sem staðfestir þátttöku iðkanda þegar þú hefur greitt æfingagjöldin

  • Meginreglan er að iðkendur í ungmennastarfi eru ekki tryggðir hjá ungmennafélögum sínum.

    Iðkendur UMFÞ eru því ekki tryggðir á vegum félagsins þó þeir stundi æfingar og keppi á vegum þess.

    Hinsvegar fellur trygging iðkenda yfirleitt innan heimilistrygginga, við bendum forráðamönnum á að kanna heimilistryggingar sínar til að staðfesta tryggingu barna sinna

  • Öllum foreldrum stendur til boða að fara á fararstjórnarnámskeið hjá ÍSÍ svo framarlega sem námskeið er haldið.

    Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en sætaframboð er takmarkað.

    Námskeiðið er ein kvöldstund og ýmsar gagnlegar upplýsingar til handa þeim fjölmörgu foreldrum og sjálfboðaliðum sem taka að sér fararstjórn innan íþróttahreyfingarinnar. Námskeið fara fram fyrri hluta árs og eru auglýst með þriggja vikna fyrirvara.

    Nauðsynlegt er að tilvonandi fararstjórar komandi móta skrái sig til leiks

  • Þróttur er í samstarfi við Jakosport sem skaffar alla kepnisbúninga og sérmerkt föt fyrir félagið.

    Hægt er að hafa samband við Jakosport í síma 566-7310 eða heimsækja þau við Krókháls 5F, 110 Árbæ.

    Þar er hægt að kaupa keppnisbúning og utanyfirgalla. Einnig er hægt að kaupa töskur og láta merkja fyrir sig Þróttaravarning

  • Hægt er að skoða leiðir til að styrkja íþróttastarf Þróttar hér

Foreldrahandbók Þróttar var unnin af stjórn UMFÞ árið 2011 og samþykkt til birtingar sama ár.

Handbókin er endurskoðuð á hverju ári. Markmið handbókarinnar er að leiðbeina foreldrum
og öðrum félagsmönnum í starfi félagsins. Handbókin er tekin til skoðununnar á hverju ári.

Eineltisáætlun, siðareglur og agareglur eru að finna á heimasíðu UMFÞ. Þær komu út sama ár og foreldrahandbók UMFÞ.