Um Þrótt

Ungmennafélagið Þróttur var stofnað 23. október 1932 en um aldamótun 1900 hafði verið starfandi ungmennafélag í Vatnsleysustrandar-hreppi en það hafði lagst af 1920.

Í fyrstu stjórn UMFÞ voru: Jakob A Sigurðsson frá Sólheimum (formaður), Helgi Magnússon frá Sjónarhóli, Einar Samúelsson frá Austurkoti í Vogum, Pétur G Jónsson frá Nýja bæ í Vogum og Guðmundur B Jónsson frá Brekku í Vogum.

Á öðru starfsári félagsins var ráðist í að byggja félagsheimili í samstarfi við Kvenfélagið Fjólu. Um jólin 1933 var nýja húsið vígt og fékk nafnið Kirkjuhvoll og stendur það húsið uppi enn í dag á Vatnsleysuströnd. Tuttugu árum síðar keypti UMFÞ, Kvenfélagið Fjóla og Vatnsleysustrandarhreppur samkomuhúsið Glaðheima í Vogum sem stóð við Vogagerði 21-23.

UMFÞ hefur frá upphafi haldið út blaði sem nefndist Vitinn. Blaðið er í bókarformi sem gengur á milli félagsmanna (ritstjóra) og þeir skrifuðu ýmislegt til skemmtunar og fróðleiks. Búið er að ljósrita upp úr bókunum og binda inn þannig að þær eru aðgengilegar auk þess sem bækurnar eru varðveittar á Landsbókasafni.

Merki félagsins er kringlótt með hvítum grunni og appelsínugulri rönd á jaðrinum. Merkinu er skipt í fjóra jafna fleti sem innihalda eitt tákn hver í svörtu og bláu. Opin bók, merkir menningu, viti, merkir bókina Vitinn, fjallið Keilir, merkir staðsetningu félagsins og maður að stinga sér til sunds, merkir íþróttaiðkanir félagsins. Lovísa Símonardóttir hannað merki félagsins.

Ýmis menningar- og félagsmál hafa verið á vegum UMFÞ í gegnum tíðina. Félagið hefur m.a. rekið unglingaskóla og staðið fyrir í ýmiskonar menningarviðburðum í sveitarfélaginu. Íþróttastarf er nú fyrirferðamest innan félagsins og stunda börn og unglingar innan félagsins en megináhersla er lögð á sund, knattspyrnu og júdó.

(byggt á Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund B Jónsson)