Skógfellavegur laugardaginn 30. maí 2020 (Myndaveisla)

Með maí 31, 2020 Fréttir

Ungmennafélagið Þróttur tók þátt í Hreyfiviku UMFÍ í vikunni sem leið og stóð fyrir fjölbreyttri dagskrá.

Það var frábær þátttaka þegar 27 sveitungar og vinir þeirra skelltu sér Skógfellaveg (18 km) í gærkvöldi. Gangan var samstarfsverkefni Minjafélagsins og Þróttar, kunnum við Minjafélaginu miklar þakkir fyrir þeirra framlag.

Félagið leitaði einnig til Sveitarfélagsins Voga um að hafa sundlaugina opna til miðnættis fyrir göngugarpa og aðra íbúa sveitarfélagsins. Kunnum við þeim hjá íþróttamiðstöðinni/Vogabæjarhöllinni miklar þakkir fyrir að svara kallinu og lyfta þessu á hærri stall. Fjölmargir nýttu sér tækifærið og skelltu sér í pottinn á laugardagskvöld sem segir okkur að við verðum að endurtaka leikinn.

Hópurinn fór hratt yfir í gærkvöldi og skiptist í tvennt á miðri leið. Allir skemmtu sér vel og komust heil heim eftir velheppnaða göngu í frábærum félagsskap.

Það var skemmtilegt að hlusta á sögurnar hans Helga Guðmundssonar um herinn. Einnig fór með okkur menningarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga, Daníel Arason, virkilega skemmtilegt að fá að kynnast Daníel enn betur við þessar aðstæður og heiður að hafa hann með í för. En hann hóf störf hjá sveitarfélaginu fyrir rúmu ári síðan.

Við hvetjum ykkur sem tóku þátt í göngunni með okkur að senda okkur punkta, því við ætlum að endurtaka leikinn. Það er alltaf hægt að leita til Helgu Ragnarsdóttur hjá Minjafélaginu, Matta Ægis framkvæmdastjóra UMFÞ eða Petru Ruth Rúnarsdóttur formann félagsins og koma hugmyndum á framfæri.

 

Myndirnar tóku ljósmyndarar UMFÞ Guðmann Lúðvíksson og Jóna Stefánsdóttir á Canon E-Turbo230 árgerð 2013.