Skógfellavegur – ganga úr Grindavík í Voga á laugardaginn!

Með maí 29, 2020 Fréttir

Skógfellavegur – ganga úr Grindavík í Voga.

Hreyfivika UMFÍ laugardaginn 30. maí. Gangan hefst klukkan 16:30. Göngugarpar geta nýtt sér heita pottinn og farið í sundlaugina eftir göngu.

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af litla og stóra Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.
Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður og sumstaðar má sjá djúp hófför í klöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 700 árin eða svo.

Leiðin er um 17 km. og tekur um 5 tíma í göngu. Gangan hentar flestum en þó ekki ungum börnum. Öll börn undir 14 ára verða að vera í fylgd fullorðinna.

Ekið er til Grindavíkur. Beygt til vinstri, fyrstu íbúagötuna og ekið áfram að öðru hringtorgi. Þar er beygt til vinstri og er upphaf Skógfellavegar við enda götunnar.
Ekki er hægt að geyma bíla við upphafsstað. Mælt er með að fólk sameinist í bíla og/eða láti skutla sér.

Þeir sem vilja lesa nánar um Skógfellaveg, örnefni á leiðinni og söguna er bent á bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi sem Lionsklúbburinn Keilir gaf út.