Skóflustunga tekin í dag að nýju félagsheimili Þróttar og flóðlýstum gervigrasvelli – ATH: Aprílgabb

Með apríl 1, 2021 Fréttir

Ungir iðkendur Þróttar munu taka  skóflustungu að nýrri félagsaðstöðu og gervigrasvelli í fullri stærð á félagssvæði Þróttar í dag klukkan 11:00.

Félagsaðstaðan mun hýsa búningsklefa fyrir knattspyrnusvæði, aðstöðu fyrir vallargesti, skrifstofur og veislusali.

Þá mun nýr knattspyrnuvöllur, lagður gervigrasi og í fullri stærð, einnig rísa á svæði Þróttara. Gengið hefur verið frá samningi við Íslenska aðalverktaka hf. um byggingu hússins og knattspyrnuvallarins. Stefnt er að því að húsið verði tilbúið til notkunar í byrjun næst árs en knattspyrnuvöllurinn strax í haust.

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga þann 7. október sl. var erindi Þróttar um bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar tekið fyrir og sent til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar.

Heildarkostnaður við þessa framkvæmd er áætlaður undir hálfum milljarði króna og hefur Sveitarfélagið Vogar fengið úthlutað styrk úr Mannvirkjasjóði KSÍ auk þess að Ríkissjóður mun kosta hluta framkvæmdanna sem lið í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum í kjölfar þess aukna atvinnuleysis sem ríkir vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Þróttur býður öllum Þrótturum og öðrum bæjarbúum að vera viðstaddir athöfnina sem hefst stundvíslega kl. 11:00. Búið er að útbúa fimmtán sóttvarnarhólf við knattspyrnusvæðið og eru allir gestir beðnir að halda sig í sínum hólfum.

Að athöfn lokinni verður boðið upp á léttar veitingar í öllum sóttvarnarhólfum.

Gestir frá Sveitarfélaginu Vogum, UMFÍ og KSÍ verða á svæðinu.