Rúmt ár frá því að Ungmennafélagið Þróttur tók við rekstri íþróttamiðstöðvar – Farið vel á stað – Erum alltaf að verða betri ….

Með júní 22, 2023 Fréttir
Rúmt ár frá því að Ungmennafélagið Þróttur tók við rekstri íþróttamiðstöðvar 
– Farið vel á stað – Erum alltaf að verða betri …. 
 
 
Það var sögulegur dagur er UMFÞ tók við rekstri íþróttamiðstöðvar af Sveitarfélaginu Vogum þann 1. apríl 2022. Samningaviðræður við Sveitarfélagið höfðu staðið yfir í marga mánuði og átti Sveitarfélagið frumkvæði að þeim viðræðum. Sameiginleg markmið  breytingana voru að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins á öllum aldri, efla félagsanda félagsins og stuðla að aukinni heilsuseflingu bæjarbúa. Ungmennafélagið varð því eitt af fjölmörgum íþróttafélögum sem fara með rekstrarumsjón íþróttamannvirkja hér á landi. Viðræður voru góðar og uppbyggilegar. Það var mikið framfaraskref að bæjaryfirvöld skyldu treysta UMFÞ fyrir slíku verkefni á sjálfu 90 ára afmælisári félagsins og mikill heiður. 
 
Áhersluatriði: 
Við hófum vegferðina með krafti er samningar tókust um áframhaldandi samstarf við Gym heilsu um rekstur á tækjasal. Lögð var mikil áhersla á að eiga í góðu samstarfi við Gym heilsu og í sameiningu var farið í breytingar og endurnýjun tækja á tækjasal. Nýtt kassakerfi var tekið í notkun og í framhaldi af því hófst sjálfsafgreiðsla fyrir notendur sem skráðir eru með lögheimili í Vogum. 
 
Fræðsla: 
Stefna Ungennafélagsins Þróttar sem gildir frá árinu 2022-2026 var innleidd inn í starfsemi íþróttamiðstöðvar í samstarfi við starfsfólk á skipulagsdögum 7. og 8. apríl 2022. Var þá hver þáttur í stefnunni tekinn fyrir og yfirfærður yfir á starfsemi íþróttamiðstöðvar og fundnar nýjar leiðir til að ná hverjum þætti sem rýmaði við umhverfi og starfsaðstæður. Ýmsar breytingar hafa orðið í kjölfar stefnumótunar. Útbúin var starfsmannahandbók með öllum upplýsingum, áætlunum og öryggiskröfum sem gerðar eru til starfsfólks íþróttamiðstöðva. Einnig var útbúin upplýsingabæklingur fyrir mótttöku nýrra starfsmanna. 
 
Litlu hlutirnir skipta máli: 
Félagið fór á stað með sjálfssala í samstarfi við Ölgerðina og að auki gátu gestir fengið sér ís að lokinni sundlaugarferð. Til að viðhalda í sveitarómantíkinni þá tókum við inn Tótuflatkökur sem eru til sölu í afgreiðslu íþróttamiðstöðvar. Ákveðið var að nýta mannauð sem til staðar er hjá félaginu þegar farið var í samstarf við bæinn í heilsueflingu eldri borgara og sér Elísabet Kvaran þar um okkar besta fólk. Hún er með viðeigandi réttindi og því mikið happ að við skulum hafa fagaðila innan okkar raða til að sjá um slíka þjálfun enda fjarri því að vera sjálfsagt. Við höfum tekið sundlaugargang, klósett, frístundaherbergi, afgreiðslu íþróttamiðstöðvar og kaffistofu starfsmanna í gegn. Einnig settum við sumarblóm við anddyri íþróttamiðstöðvar til að hafa fallegt í kringum okkur. Við getum endalaust bætt við en þetta er það sýnilegasta.  
 
Mikið þakklæti: 
Núna þegar rúmt ár er liðið frá því að félagið tók við rekstri íþróttamiðstöðvar þá langar okkur að þakka bæjarbúum fyrir hlýlegar móttökur og hafa gestir íþróttamiðstöðvar tekið okkur opnum örmum. Þetta er gefandi og skemmtilegt verkefni, íþróttahúsið og sundlaugin er fyrir bæjarbúa og aðra gesti og iðkendur félagsins. Hingað á að vera gott að koma og hér á öllum að líða vel. Við erum svo sannarlega ennþá að læra og hlustum á alla notendur sem koma með ábendingar okkur öllum til heilla. Hér slær hjarta félagsins í takt alla daga þökk sé frábæru starfsfólki íþróttamiðstöðvar, stjórnarliðum, sjálfboðaliðum, iðkendum UMFÞ, þjálfurum og stuðningsfólki Þróttar sem eru fjölmargir.