Kveðja frá Ungmennafélaginu Þrótti.

Með júlí 16, 2020 Fréttir

Baldvin Hróar Jónsson fyrrum formaður UMFÞ lést langt fyrir aldur fram þann 9. júlí sl. fertugur að aldri. Hróar sat í aðalstjórn Þróttar samfleytt 2016 til 2020, Hróar var formaður UMFÞ 2017 til 2019.

Missirinn og sorgin er mikil. Við hjá Ungmennafélaginu erum harmi slegin yfir fráfalli félaga okkar og góðs vinar. Baldvin Hróar var traustur og ábyrgur leiðtogi, hæfileikaríkur og með sýn sem gekk út á að gera veg íþrótta, iðkenda félagsins og félagsstarfs sem mestan í sveitarfélaginu. Sérstaklega var Hróari annt um yngri iðkendur félagsins í barna og unglingastarfinu. Hann fór ekki dult með skoðanir sínar og var óhræddur við að koma þeim á framfæri en á hógværan hátt. Hróar fór tvívegis til DGI (systrafélag UMFÍ) í Dammörku til að taka þátt í stefnumótandi vinnu varðandi framtíð landsmót UMFÍ og til að kynna sér nýjar íþróttagreinar. Einnig hafði hann frumkvæði að nýrri heimasíðu Þróttar sem tekin var í notkun á síðasta ári. Ungmennafélagið Þróttur þakkar Hróari gott og gæfuríkt samstarf sem mun geymast en aldrei gleymast. Við syrgjum góðan félaga og vin. Minningin um hann mun lifa með okkur áfram.

Þróttur Vogum sendir eiginkonu, börnum, öðrum ástvinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Þróttar, Petra Ruth Rúnarsdóttir formaður og Marteinn Ægisson framkvæmdastjóri.

Baldvin Hróar verður jarðsettur frá Kálfatjarnarkirkju föstudaginn 17. júlí kl. 13