Heilsu- og forvarnarvika í Vogum 5. – 11. okt. Dagskrá heilsu- og forvarnarviku í Vogum hefur aldrei verið glæsilegri. Hvetjum alla bæjarbúa til að taka þátt!

Með október 2, 2020 Fréttir

Heilsu- og forvarnarvika Sveitarfélagsins Voga.

Sveitarfélagið Vogar heldur heilsu- og forvarnarviku 5. til 11. okt nk. í samstarfi UMFÞ.

Við hvetjum alla bæjarbúa til að nýta sér þá fræðslu sem verður í boði og auk annara viðburða.

Dagskrá heilsu- og forvarnarviku í Vogum hefur aldrei verið glæsilegri. Hvetjum alla bæjarbúa til að taka þátt í þessu. 

Mánudagurinn 5. okt

Bryndís Jóna Jónsdóttir verður með fyrirlestur í íþróttamiðstöðinni klukkan 19:00. Bryndís gaf út bókina „Núvitund í dagsins önn“ á síðasta ári. Bryndís kennir hjá HÍ og auk þess er hún núvitundarkennari hjá Núvitundarsetrinu.

Þriðjudagurinn 6. okt

Vogaþrek Þróttar 06:15 til 07:00. Öllum bæjarbúum er velkomið að koma og prófa. Alhliða líkamsrækt fyrir fólk á besta aldri. Tímarnir fara fram í stóra sal í íþróttamiðstöð. Þjálfari Daníel Fjeldsted.

Fyrirlestur með Pálmari Ragnarsyni í Tjarnarsal klukkan 19:30 til 20:30.

Pálmar Ragnarsson er fyrirlesari og körfuboltaþjálfari sem hefur slegið í gegn með fyrirlestrum um jákvæð samskipti. Fyrirlesturinn hefur hann flutt fyrir marga af stærstu vinnustöðum landsins, ýmis ráðuneyti og fleiri. Í fyrirlestrinum fjallar hann á skemmtilegan hátt um það hvernig við getum náð því besta úr fólkinu í kringum okkur með góðum samskiptum. Samhliða því tekur hann mörg skemmtileg dæmi af samskiptum barna á íþróttaæfingum og yfirfærir á vinnustaðinn auk þess sem hann segir frá niðurstöðum rannsóknar sem hann gerði á samskiptum á vinnustöðum á Íslandi í meistaranámi sínu í Háskóla Íslands.

Miðvikudagurinn 7. okt

Einkaþjálfari á vegum Gymheilsu verður í tækjasal milli 16:00 til 19:00. Hvetjum bæjarbúa til að koma og prófa ræktina undir handleiðslu kennara.

Fimmtudagurinn 8. okt

Vogaþrek Þróttar 06:15 til 07:00. Öllum bæjarbúum er velkomið að koma og prófa.

Alhliða líkamsrækt fyrir fólk á besta aldri. Tímarnir fara fram í stóra sal í íþróttamiðstöð. Þjálfari Daníel Fjeldsted.


Föstudagurinn 9. okt

Helga Arnarsdóttir heldur fyrirlestur í Álfagerði um jákvæða sálfræði og andlega líðan. Fyrirlesturinn hefst klukkan 10:00. Helga hefur starfað frá árinu 2015 við andlega heilsu og leiðir til að hlúa að henni m.a. í Bataskóla Íslands.

Laugardagurinn 10. okt


Félagsleg farsæld er mikilvæg og þátttaka íbúa í sínu samfélagi er enn mikilvægari. Allir íbúar eru velkomnir í félagskaffi Þróttar milli 11:00 og 13:00. Anna og Guðrún taka vel á móti ykkur.

Tilefni forvarnarviku Sveitarfélagsins verður sundlaug íþróttamiðstöðvar opin almenningi til 23:00.

Meistaraflokkur Þróttar tekur á móti ÍR frá Breiðholti klukkan 14:00. Frítt inn fyrir 18. ára og yngri. Aðgangseyrir þessa leiks rennur til styrktar fjölskyldu fyrrum formanns Baldvins Hróars Jónssona sem lést 9. júlí sl. Einnig ætlar Björgunarsveitin Skyggnir að keyra upp stemmninguna fyrir leikinn og grilla hamborgara. Að sjálfssögðu mun allur hagnaður af grillsölu renna til fjölskyldu Baldvins Hróars.

Minjafélagið mun standa fyrir göngu í samstarfi við Sveitarfélagið Voga. Gengið verður gamla þjóðleiðin „Stapagata“ frá Njarðvík og yfir Vogastapa. Auglýst þegar nær dregur.


Sunnudagurinn 11. okt

Hvetjum börn og unglinga 10 til 15 ára að mæta á kynningu hjá meistaraflokki Þróttar í blaki. Þar verður farið yfir grunnatriðin í blaki. Mæting klukkan 11:00 og muna taka góða skapið með sér.

Tilefni Forvarnarviku Sveitarfélagsins Voga:

Jakosport.is verður með Þróttaraföt á sérstöku tilboðsverði.
Verslunin Vogar er með kjúklingasalat á tilboðsverði alla forvarnarvikuna.
Við hvetjum íbúa Sveitarfélagsins Voga til að nota sundlaugina sér til heilsubótar. Það er frítt í sund fyrir bæjarbúa. Laugin er opin til klukkan 23:00 laugardaginn 10. október.