Frábær stuðningur áhorfenda í kvöld – Jafntefli á móti Njarðvík í fyrsta leik – Myndir

Með maí 7, 2021 Fréttir

Njarðvík og Þróttur V. gerðu 3-3 jafntefli í fyrstu umferð í 2. deild karla í kvöld.

Þökkum Njarðvíkingum fyrir leikinn og frábært að sjá umgjörðina í kringum knattspyrnudeild UMFN og ástríðu stjórnarmanna í garð félagsins.

Miklar þakkir til stuðningsfólks okkar sem lét vel í sér heyra og skilaði tveimur mörkum í lokin.

Kenneth Hogg kom Njarðvík yfir á 17. mínútu leiksins eftir hornspyrnu. Marc McAusland var nálægt því að bæta við öðru þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en skalli hans fór í stöng.

Zoran Plazonic gerði annað mark fyrir heimamenn á 63. mínútu en hann lyfti boltanum snyrtilega yfir Rafal Stefán Daníelsson í markinu. Ragnar Þór Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Þróttara þegar fimmtán mínútur voru eftir en þeir voru skotnir aftur niður þremur mínútum síðar er Hogg gerði annað mark sitt í leiknum.

Þróttarar neituðu hins vegar að gefast upp. Rubén Lozano Ibancos minnkaði muninn þegar fimm mínútur voru eftir og á 88. mínútu kom jöfnunarmarkið. Sigurður Gísli Snorrason átti aukaspyrnu á Hubert Rafal Kotus sem skallaði boltann í netið.

Lokatölur 3-3 í hörkuleik í Njarðvík.

Njarðvík 3 – 3 Þróttur V.

1-0 Kenneth Hogg (’17 )
2-0 Zoran Plazonic (’63 )
2-1 Ragnar Þór Gunnarsson (’75 )
3-1 Kenneth Hogg (’78 )
3-2 Rubén Lozano Ibancos (’85 )
3-3 Hubert Rafal Kotus (’88 )

Myndir sem fyrr: Guðmann R. Lúðvíksson.