
Ungmennafélagið Þróttur fagnaði 90 ára afmæli í síðasta mánuði. Félagið var stofnað þann 23. október 1932 en alla tíð hefur verið mjög líflegt starf í félaginu. Starfsemin hefur verið í miklum blóma síðustu ár og er það m.a. að þakka uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Þannig eru rétt tæpir þrír áratugir síðan íþróttamiðstöð var opnuð í Vogum með sundlaug, parketlögðum íþróttasal og annari aðstöðu. Utan við íþróttamiðstöðina eru tveir knattspyrnuvellir þar sem Þróttur lék síðasta sumar í næstefstu deild en veran í þeirri deild á nýliðnu sumri er besti árangur sem Þróttur hefur náð í knattspyrnusögu félagsins.
Félaginu bárust peningagjafir frá Kvenfélaginu Fjólu, Gullási og Sveitarfélaginu Vogum tilefni tímamótanna. Þá voru veitingar og hlaðborð í boði Hérastubbs bakara í Grindavík.
Mynd: Hilmar Bragi Víkurfréttir.
Þróttmiklir í Vogum í 90 ár – Víkurfréttir (vf.is) Frétt Víkurfrétta og myndir frá hátíðarhöldum.
Ávörp voru haldin á tímamótunum. Petra Rut Rúnarsdóttir, formaður UMFÞ, rakti sögu ungmennafélagsins í grófum dráttum og þá ávörpuðu Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri, og Birgir Örn Ólafsson, formaður bæjarráðs, samkomuna. Það gerðu einnig Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags, Rúnar Arnarsson, formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar og fyrrum stjórnarmaður KSÍ og Borghildur Sigurðardóttir, fyrsti varaformaður KSÍ. Að endingu kom Sóli Hólm og skemmti fólki með uppistandi og börn fengu andlitsmálningu í tilefni.