Flokkur

Pistlar

Ákall formanns til Þróttara og Vogabúa fyrir komandi sumar

Með | Pistlar

Veturinn hefur verið blómlegur þökk sé duglegum sjálfboðaliðum og þjálfurum.

Iðkendur Þróttar hafa staðið sig vel á öllum vígstöðvum. Sundið er ennþá í þróun og heldur áfram að þroskast í réttar áttir.  Við fengum Íslandsmeistara í júdó á dögunum. Ekki má gleyma öðrum iðkendum og þjálfurum sem eru að standa sig vel í nafni félagsins.

Framundan eru nokkur fjáröflunarverkefni sem ég vil sérstaklega biðja ykkur að taka vel á móti, eins og t.d. með því að mæta á viðburði eins og stuðningsmannakvöld meistaraflokks Þróttar þann 30. apríl nk., með því að kaupa árskort á völlinn fyrir sumarið, eða jafnvel að veita stuðning þinn með öðrum hætti. Þróttarar spila í fyrsta sinn í 2. deildinni og fjölmiðlar munu fjalla töluvert meira um félagið og Voga í kjölfarið. Meistaraflokkur Þróttar hefur náð ótrúlegum árangri síðustu árin og sé tekið mið að því að við vorum síðasta bæjarfélagið á Suðurnesjum til að vera með lið í hópíþróttum. Þá erum við að standa okkur vel, að mæta á völlinn í sumar er ekki bara horfa á fótbolta. Tökum þátt í okkar samfélagi.

Yngriflokkar í knattspyrnu eru að fara á kostnaðarsöm mót í sumar og eru þau að safna dósum til að auðvelda þátttöku sína með tiltekt í dósagám Þróttar og í kringum íþróttasvæðið þar sem hjarta félagsins slær alla daga. Símamótið, Orkumótið, N1 mótið og Norðurálsmótið þar verður Þróttur. Einnig eru aðrar fjáraflanir á döfinni hjá foreldrafélagi Þróttar og mikilvægt að þessum aðilum gangi vel í sínu ferðalagi og við treystum á okkar fólk til að taka vel á móti börnunum okkar þegar þau banka uppá. Þessar fjáraflanir halda áfram næsta haust þegar vetrarstarfið fer í gang samhliða öðrum greinum.

Kæru Þróttarar og Vogabúar, tökum höndum saman og sýnum samstöðu. Styðjum fólkið okkar, hrósum okkar íþróttafólki hvort sem þau eru að spila knattspyrnu með Þrótti óháð hvaða flokki, æfa sund eða júdó hjá Þrótti. Við eigum svo mikið af iðkendum sem leggja sig fram við að ná árangri, og tökum vel á móti öllum erindum sem snúa að hagsmunum Þróttar sem íþróttafélags. Allir okkar iðkendur eru frábær auglýsing fyrir félagið og bæinn okkar. Ekki má gleyma félagslegri farsæld barnanna að æfa og stunda íþróttir.

Kveðja, Baldvin Hróar formaður Þróttar Vogum.

Pistill frá formanni UMFÞ

Með | Pistlar

Ég heiti Baldvin Hróar, kallaður Hróar og er formaður UMFÞ í dag. Tilefni þess að vetrarstarfið er farið í gang, þá langar mig að kynna mig og segja frá tilvonandi starfsári Ungmennafélagsins Þróttar í fáeinum setningum.

Sjálfur æfði ég körfu, fótbolta, handbolta, badminton og tók þátt í allskyns starfsemi á vegum UMFÞ á mínum yngri árum. Einnig átti ég góðar stundir í skátunum og Unglingadeild Skyggnis á sama tíma. Þegar ég rifja upp bernskuna og hversu gott það var að alast upp í Vogum þá skipar Ungmennafélag Þróttar stórann þátt í þeim minningum.

Það er okkar markmið sem komum að stjórnun Ungmennafélagsins Þróttar að tryggja að börn, unglingar og aðrir í sveitarfélaginu Vogum geti stundað íþróttir og félagsstarfssemi sér til ánægju og heilsubótar. Þátttaka í íþróttum og félagsstarfi er mikilvæg forvörn og er liður í félagslegri farsæld um ókomna tíð hjá iðkendum félagsins. Krakkarnir eignast vini í félaginu og þetta verður þeirra félag. Þátttaka foreldra er ekki síður mikilvægari. Taka þátt í starfinu með barninu og styðja við bakið á UMFÞ á sama tíma. Öll félög stóla á sjálfboðaliða og eru ekkert án þeirra.

Starfið verður með hefðbundu sniði líkt og undanfarin ár. Það hefur orðið fjölgun í júdó og sundi á meðan knattspyrnan hefur staðið í stað. Okkar markmið er að vernda þessar þrjár greinar enda eru þær ákaflega brothættar og ennþá í viðkvæmri uppbyggingu. Það hefur fækkað all verulega í Stóru-Vogaskóla og spurning hve mikil áhrif það hefur á okkar starfsemi í vetur. Ætti það að liggja fyrir á næstu dögum þegar skráningum lýkur fyrir komandi starfsár.

Æfingataflan fyrir júdó og sund var gefin út á dögunum. Verið er að ráða þjálfara í knattspyrnunni, endanlegur þjálfaralisti og æfingatafla ætti að liggja fyrir í lok september. Hafa skal í huga ef allt væri fullkomið þá væri að sjálfssögðu frábært að allir iðkendur okkar gætu klárað æfingar strax eftir skóla og komið heim fyrir kvöldmat. En svo einfalt er þetta ekki, þjálfarar okkar eru flestir í hlutastarfi og þetta er aukastarf með aðalvinnu eða krefjandi námi. Einnig fer þetta eftir lausum tímum í Vogabæjarhöllinni. Það eru fleiri notendur en UMFÞ í húsinu og taka þarf tilit til þess.

Nýr þjálfari tók við sundinu á dögunum og heitir Margrét Lilja og kemur frá Keflavík. Aðstaðan er orðin betri með tilkomu stungupallana og langar mér að nota tækifærið og þakka Sveitarfélaginu Vogum fyrir framtakið.

Arnar Már verður sem fyrr þjálfari Þróttar í júdó og ætlum við að byrja með krílajúdó í október sem er nýtt hjá okkur. Æfingaaðstaðan er í kjallara Vogabæjarhallar og hefur verið griðastaður okkar sl. 12. árin. Á næstu dögum ætlum við að merkja hann með okkar félagsmerki og gera hann ennþá heimilislegri.

Brynjar Þór er yfirflokkaþjálfari Þróttar í knattspyrnunni og hóf hann störf fyrir um ári. Verið er að skipuleggja boltann fyrir komandi vetur. Verður forvitnilegt að fylgjast með sameiningarmálum og öðrum áherslum á næstu vikum. Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir því að við erum að gera okkar besta fyrir félagið og iðkendur Þróttar. Stærsti galli sameiningar er og verður alltaf samgöngurnar. En sjáum hvað setur á næstu dögum og vikum. Knattspyrnan fer í frí 16. september og hefst aftur mánuði seinna.

Við ætlum að byrja með Badminton í haust og hvetjum við alla til að koma og prófa. Hugsunin er að allir aldurhópar finni eitthvað við hæfi og hentar badminton mjög vel fyrir alla, óháð aldri eða formi.

Fjölmörg námskeið eru á vegum Þróttar td. leiklist og Íþróttaskóli Þrótti. Við erum alltaf að skoða aðrar leiðir og ef einhver lumar á skemmtilegum hugmyndum og vill gera eitthvað sjálfur þá um að gera hafa samband við okkur.

Á dögunum höfum við verið að skerpa á hinum ýmsu málum hjá okkur og eitt þessara mála er foreldrahandbókin. Hana verða allir foreldrar að lesa sem eru með börn í félaginu. Ef upp koma mál þá ætti foreldri eða hinn almenni félagsmaður að geta fundið réttu leiðina með því að fletta foreldrahandbókinni. Bókina er að finna inná heimasíðu Þróttar og þar er líka að finna vetrarbækling fyrir starfsárið 2017 – 2018.

Mikilvægt er að við öll kynnum okkur foreldrahandbókina. Gildir líka fyrir stjórnarmenn, þjálfara og aðra félagsmenn.

Félagið verður 85. ára í október á þessu ári. Ætlum við að minna vel á daginn og iðkendur félagsins fá tækifæri til að fagna með félaginu.

Ég þakka öllum sem gáfu sér tíma til að lesa pistilinn og minni ykkur á að við erum saman í þessu hvort sem það er stjórnarfólk, iðkendur, þjálfarar eða foreldrar.

Með Þróttarakveðju, Hróar formaður UMFÞ.