Árangur Þróttar síðustu árin er ekki tilviljun heldur uppskera mikillar vinnu….. (Pistill frá formanni knd. Þróttar)

Með maí 27, 2016 UMFÞ

10Fótboltasumarið hefst formlega í dag. Þróttur Vogum tekur þátt í fyrsta sinn í sögu félagsins þátt í landsdeild og fyrsti leikur í 3. deildinni verður á móti Dalvík/Reyni í dag mánudaginn 16.maí á Vogabæjarvelli og hefst leikurinn klukkan 16.

Strákarnir hafa verið að standa sig mjög vel í æfingaleikjum í vetur og vor og hafa verið að spila betur og betur. Ljóst er að Andri Steinn og strákarnir eru að gera góða hluti og það er spennandi sumar framundan í fótboltanum.

En um leið og verið er að byggja liðið upp þá þurfa þeir stuðning, stuðning sem við Þróttarar getum sýnt með því að mæta á leiki í sumar og styðja við bakið á strákunum.
Árangur Þróttar síðustu árin er ekki tilviljun heldur uppskera mikillar vinnu.

Frá árinu 2011 hefur liðið alltaf bætt sig og gert betur frá árinu áður. Við höfum verið lánsamir með þjálfara og leikmenn í gegnum tíðina. Ekki má gleyma þætti stuðningsmanna og sjálfboðaliða sem hafa unnið þetta með okkur síðustu árin.

Fyrir samfélagið okkar í Vogum er frábært og mikilvægt að eiga íþróttalið í fremstu röð. Það er alltaf góð auglýsing fyrir bæjarfélög þegar íþróttalið bæjarins nær árangri.

Yngri kynslóðirnar eignast fyrirmyndir og er þetta hvetjandi fyrir þá sem yngri eru að fá að spila fyrir sitt félag. Á tímabilinu er gert ráð fyrir 10-12 heimaleikjum í deild og bikarkeppni með tilheyrandi umgjörð og uppistandi á Vogabæjarvelli.

Því hvet ég alla bæjarbúa til að kíkja á völlinn í sumar og taka þátt í sínu samfélagi.
Með knattspyrnukveðju, Friðrik V. Árnason formaður knattspyrnudeildar Þróttar