Ákall formanns til Þróttara og Vogabúa fyrir komandi sumar

Með apríl 26, 2018 febrúar 25th, 2019 Pistlar

Veturinn hefur verið blómlegur þökk sé duglegum sjálfboðaliðum og þjálfurum.

Iðkendur Þróttar hafa staðið sig vel á öllum vígstöðvum. Sundið er ennþá í þróun og heldur áfram að þroskast í réttar áttir.  Við fengum Íslandsmeistara í júdó á dögunum. Ekki má gleyma öðrum iðkendum og þjálfurum sem eru að standa sig vel í nafni félagsins.

Framundan eru nokkur fjáröflunarverkefni sem ég vil sérstaklega biðja ykkur að taka vel á móti, eins og t.d. með því að mæta á viðburði eins og stuðningsmannakvöld meistaraflokks Þróttar þann 30. apríl nk., með því að kaupa árskort á völlinn fyrir sumarið, eða jafnvel að veita stuðning þinn með öðrum hætti. Þróttarar spila í fyrsta sinn í 2. deildinni og fjölmiðlar munu fjalla töluvert meira um félagið og Voga í kjölfarið. Meistaraflokkur Þróttar hefur náð ótrúlegum árangri síðustu árin og sé tekið mið að því að við vorum síðasta bæjarfélagið á Suðurnesjum til að vera með lið í hópíþróttum. Þá erum við að standa okkur vel, að mæta á völlinn í sumar er ekki bara horfa á fótbolta. Tökum þátt í okkar samfélagi.

Yngriflokkar í knattspyrnu eru að fara á kostnaðarsöm mót í sumar og eru þau að safna dósum til að auðvelda þátttöku sína með tiltekt í dósagám Þróttar og í kringum íþróttasvæðið þar sem hjarta félagsins slær alla daga. Símamótið, Orkumótið, N1 mótið og Norðurálsmótið þar verður Þróttur. Einnig eru aðrar fjáraflanir á döfinni hjá foreldrafélagi Þróttar og mikilvægt að þessum aðilum gangi vel í sínu ferðalagi og við treystum á okkar fólk til að taka vel á móti börnunum okkar þegar þau banka uppá. Þessar fjáraflanir halda áfram næsta haust þegar vetrarstarfið fer í gang samhliða öðrum greinum.

Kæru Þróttarar og Vogabúar, tökum höndum saman og sýnum samstöðu. Styðjum fólkið okkar, hrósum okkar íþróttafólki hvort sem þau eru að spila knattspyrnu með Þrótti óháð hvaða flokki, æfa sund eða júdó hjá Þrótti. Við eigum svo mikið af iðkendum sem leggja sig fram við að ná árangri, og tökum vel á móti öllum erindum sem snúa að hagsmunum Þróttar sem íþróttafélags. Allir okkar iðkendur eru frábær auglýsing fyrir félagið og bæinn okkar. Ekki má gleyma félagslegri farsæld barnanna að æfa og stunda íþróttir.

Kveðja, Baldvin Hróar formaður Þróttar Vogum.