Aðgerðir vegna COVID 19 hjá UMFÞ – Starfið hefst 4. maí – Námskeið í sumar.

Með apríl 28, 2020 Fréttir

Þróttur hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem nú varir frekar en aðrir í samfélaginu okkar.

Þróttur hefur hins vegar ekki komist hjá því frekar en önnur félög að grípa til varúðarráðstafana m.a. vegna þess tekjufalls sem nú þegar er orðið auk þess sem allt starf hefur legið niðri undanfarnar vikur. Tekjufallið snýr fyrst og fremst að því að fjáraflanir falla niður og auk þess sem einhverjir styrktaraðilar hafa eðlilega haldið að sér höndum meðan þetta ástand varir. Þá er enn óljóst með ýmis fjáröflunarverkefni sem fyrirhugaðar eru í haust sem og styrktarkvöldið sem halda átti auk mótahalds ofl. hjá einstökum deildum félagsins.

 

Þá hefur verið leitað til starfsfólks, þjálfara og annara innan félagsins um að taka á sig tímabundnar skerðingar. Það er ekki sjálfsagður hlutur en alls staðar hefur þessum aðgerðum verið mætt með skilningi og ber sérstaklega að þakka fyrir það.

 

Þá hefur einnig verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig þjálfarar félagsins hafa tæklað samkomubannið og haldið m.a. úti heimaæfingum fyrir sína iðkendur og haldið þannig öllum við efnið við þessar aðstæður. Einnig hafa stjórnarliðar og aðrir verið að hvetja til hreyfingar með ýmsum hætti.
En það er nú yfirlett þannig að það birtir alltaf að lokum og með hækkandi sól munum við komast í gegnum þetta saman. Þá bárust gleðilegar fréttir á dögunum að hægt verði að hefja æfingar hjá Þrótti 4. maí n.k. en með takmörkunum þó.

Við munum hins vegar gera okkar besta að láta þetta ganga upp og fara að öllu með gát í samstarfi við sveitarfélagið sem er yfir íþróttamannvirkjum.

Það eru spennandi tímar framundan og við hjá félaginu stefnum á að árið 2020 verði árið okkar á sviði íþróttanna og félagslegrar farsældar.

Stjórn félagsins hefur í samstarfi við þjálfara verið að skipuleggja komandi starfsemi.

Sund og júdó átti að ljúka 30. maí hefur verið framlengt til 20. júní.
Knattspyrnan er til 30. ágúst og hefur verið framlengt til 30. september. Þó með færri æfingum á hvern flokk.
Einnig hefur verið framlengt í Unglingahreystinu til tveggja vikna og verður lokið 14. maí.
Námskeið: Ævintýra og Sportskóli Þróttar, boltaskóli, körfuboltanámskeið og blaknámskeið. Allir iðkendur félagsins sem urðu fyrir barðinu á Covid vegna samkomubanns fá 60% afslátt. Aðrir greiða fullt gjald. Sumarnámskeiðin verða auglýst í næstu viku, verður opnað fyrir skráningar á sama tíma.