
Petra Ruth Rúnarsdóttir var endurkjörin formaður Þróttar í Vogum á aðalfundi félagsins á fimmtudag í síðustu viku. Þetta er þriðja kjörtímabil Petru.
Félagið ætlar sér jafnframt stóra hluti í framtíðinni. Þar á meðal er að sækja um Landsmót UMFÍ 50+ árið 2022.
Auk Petru eru í stjórn Þróttar Vogum þau Katrín Lára Lárusdóttir, Reynir Emilsson, Jóna K. Stefánsdóttir og Davíð Hanssen. Varamenn eru Sólrún Ósk Árnadóttir og Birgitta Ösp Einarsdóttir.
Guðmundur Stefán Gunnarsson íþrótta og tómstundafulltrúi Voga kom inná í ræðu sinni að Ungmennafélagið Þróttur skiptir samfélagið miklu máli í Vogum, félagið væri að standa sig frábærlega í sínum störfum.
Tinna Hallgrímsdóttir tók að sér fundarstjórn og Katrín Lárusdóttir fundarritara. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir.
Fram kom í ársreikningi félagsins að hagnaður varð af rekstri félagsins 550.786 og eigið fé var um árslok 821.563.
Ársskýrsla 2020
Áhrif Covid á starfsemi félagsins
Rétt eins og aðrir í samfélaginu hefur ástandið haft veruleg áhrif á starfsemi okkar á árinu. Það hefur reynt verulega á þolinmæði og þrautseigju þeirra sem starfa hjá Þrótti, bæði stjórnendur og iðkendur. Frá 15.mars til 4. maí stöðvaðist allt íþróttastarf og þurftum við að fella niður fjölmargar skipulagðar æfingar í hverri viku sem í kjölfarið hafði áhrif á alla iðkendur í skipulögðu íþróttastarfi hjá félaginu. Það var reynt eftir fremsta megni að sinna iðkendum félagsins með sem bestum hætti. Þjálfarar sendu iðkendum heimaæfingar frá fyrsta degi lokunar. Strax í upphafi var ljóst að tekjubresturinn yrði einhver og fjárhagstjónið stórt. Leitað var til starfsfólks, þjálfara og annara innan félagsins að taka á sig tímabundnar skerðingar. Það er ekki sjálfsagður hlutur en okkar frábæra fólk mætti þessum aðstæðum með miklum skilning og viljum við þakka þeim fyrir það. Til að koma til móts við iðkendur var framlengt tímabilið í sundi, júdó, knattspyrnu og þreki. Sund og júdó átti að ljúka 30.maí en var framlengt til 19. júní og knattspyrnan var framlengt frá 30.ágúst til 15.september. Fjölskyldurnar tóku einnig á sig skellinn og 90% foreldra óskaði ekki eftir endurgreiðslu æfingagjalda. Það var okkur mjög mikilvægt til að geta haldið starfinu gangandi og sýnir hversu mikilvægt það er í íþróttum og æskulýðsstarfi að standa saman vörð um börnin og þeirra starf. Við sendum öllum okkar foreldrum miklar þakkir fyrir stuðninginn. Einnig ber að þakka okkar frábæru þjálfurum fyrir sitt óeigingjarna starf og þann metnað sem þeir leggja í sína vinnu. Þeirra starf er mikilvægur hluti af því forvarnarstarfi sem félagið sinnir. Bakslag kom í faraldurinn í lok júlí og aftur þurfti að stöðva íþróttastarf 3.október þangað til í byrjun desember. Eins og alltaf fórum við reglulega yfir stöðuna og höguðum starfsemi í samræmi við nýjustu ráðleggingar stjórnvalda hverju sinni. Allt okkar fólk sýndi stöðunni skilning og fundum við fyrir mikilli samstöðu innan okkar liðs og liðið okkar stóð sig glæsilega. Fjölmargir viðburðir féllu niður vegna ástandsins og fastar fjáraflanir sem hafa gefið vel af sér þurftu frá að hverfa. Við misstum nokkur fyrirtæki frá okkur en fengum nokkur minni til okkar í staðinn. Félagið fékk myndarlega styrki frá ÍSÍ, KSÍ og tókst okkur að sækja um í hina ýmsu sjóði til að bregðast við tekjubresti. Eins og staðan er í dag höfum við miklar áhyggjur af brottfalli iðkenda úr íþróttum í kjölfar faraldursins. Skráningar skiluðu sér inn seinna en venjulega í haust og teljum við það vera mögulega vegna þess að forráðamenn vildu fylgjast með þróun faraldar. Æfingar hafa ekki Ársskýrsla 2020 farið fram með hefðbundnum hætti og það hefur áhrif á okkar iðkendur. Þjálfarar gátu ekki haft kynningu á starfinu í skólanum eins og hefur verið gert seinustu ár og því erfiðara að ná til krakkana. Við viljum því hvetja foreldra að halda áfram að vera með okkur í liði og hvetja krakkana til að mæta á æfingar þar sem íþróttaiðkun er mikilvæg fyrir líkamlega og andlega líðan barnanna okkar.
Hreyfivika UMFÞ, UMFÍ og Sveitafélagsins Voga
UMFÍ stendur fyrir árlegri hreyfiviku í lok maí um land allt og hvetur íþróttafélög til að taka þátt og létum við okkar ekki eftir liggja. Við buðum uppá fjölmarga viðburði fyrir bæjarbúa og má þar nefna gönguferðir, fyrirlestra og margt fleira. Markmið hreyfivikunar er að fá fólk til að stunda fjölbreytta hreyfingu og hlú að eigin heilsu í skemmtilegum hópi fólks. Í haust stóð svo til að halda flotta hreyfiviku í samstarfi við Sveitafélagið Voga en vegna bakslags í faraldrinum þurfti því miður að aflýsa henni.