Skýrsla stjórnar 2022 –

Með mars 1, 2023 Fréttir

90 ára afmæli Ungmennafélagsins Þróttar

23.október 1932 var Ungmennafélagið Þróttur stofnað og því fagnaði félagið 90 ára stórafmæli á árinu. Haldið var uppá afmælið með hátíðlegri athöfn laugardaginn 22.október þar sem öllum var boðið í skemmtilega afmælisveislu í Tjarnarsal. Boðið var uppá dýrindis veitingar að hætti Hérastubbs en einnig voru ræðuhöld, viðurkenningar, söguhorn og skemmtiatriði. Dagurinn heppnaðist stór vel og þakka ég öllum þeim sem komu að skipulagningu afmælisins fyrir að gera þetta að ógleymanlegum degi.

90 ára afmælisrit var einnig gefið út í tilefni afmælisins. Undirbúningur af því hafði staðið yfir í lengri tíma og var útkoman stór glæsilegt rit sem hefur að geyma sögu félagsins seinustu ár en sýnir einnig hversu blómlegt og fjölbreytt starfið er í dag. Erum við ákaflega þakklát þeim Tinnu Hallgrímsdóttur og Marteinni Ægissyni fyrir að leggja alla þá vinnu á sig og metnað við að gera þetta rit að veruleika. Vill ég hvetja alla til að lesa þetta fallega blað og að kynna sér þá starfsemi sem í boði er hjá félaginu.

Leiklist

Ákveðið var að bjóða uppá leiklistarnámskeið á árinu þar sem leiklist er hluti af okkar sögu og því skemmtilegt að endurvekja þá hefð á afmælisárinu. Kennari námskeiðsins var leikarinn Ingi Hrafn og vorum við heppin að fá hann í lið með okkur í þetta verkefni. Héldum við námskeið fyrir fólk frá 13 ára aldri og reyndist þetta vera skemmtilegt verkefni sem við vonumst til að geta þróað áfram í framtíðinni. Vill ég þakka Inga Hrafni fyrir hans framlag og leiðsögn.

Fjölsport

Á árinu var ný grein sett á lagirnar þar sem boðið er uppá að æfa hinar ýmsu greinar sem leiðir til þess að börn í Vogum hafa aukið tækifæri til að prófa íþróttir sem áður voru ekki í boði. Kom hugmynd að byrja með þessa grein vegna brottfalls í kjölfar heimsfaraldurs auk þess sem þátttaka í júdó og sundi hafði verið dræm undanfarin ár. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni sem Jana Lind okkar heldur utanum og hefur farið vel af stað.

Knattspyrna

Undanfarið hefur verið að aukast brottfall iðkennda í knattspyrnu og þeir sækja að æfa utan sveitarfélagsins þar sem aðstaðan er betri. Hefur félagið töluverðar áhyggjur af þessu brottfalli.

Í lok árs 2022 hélt félagið úti knattspyrnuflokkum í 8.,7. og 6. flokki og hefur Emil Þór haldið utan um þá flokka. Viktor Ingi fór með 4.flokk til Salou í ógleymanlega ferð þar sem bæði iðkendur og forráðamenn nutu sín í botn. Viktor lét af störfum hjá félaginu á árinu og þökkum við honum fyrir vel unnin störf.

Vogaþrek

Vogaþrek heldur áfram fyrir fólk á öllum aldri. Í byrjun árs var ákveðið að bjóða uppá æfingar þrisvar sinnum í viku en í haust var þeim fækkað aftur niður í tvær eins og var áður vegna ónægilegrar þátttöku. Líkt og aðrar greinar hefur brottfall orðið í Vogaþreki eftir heimsfaraldur en vonast er til að það fari að aukast í hópnum. Árleg styrktaræfing var haldin í desember og var safnað til styrktar Haraldi Hjalta og fjölskyldu hans en Halli glímir við krabbamein. Þátttaka var frábært og þökkum við þeim sem tóku þátt og styrktu gott málefni.

Starf eldri borgara

Þróttur hóf að bjóða uppá fjölbreytta og skemmtilega hreyfingu fyrir eldri borgara í Vogum í samstarfi við Sveitarfélagið og hefur þátttaka verið góð. Í boði er stólaleikfimi, sundleikfimi, styrktarþjálfun og jóga undir handleiðslu Elísabetar Kvarans. Markmið hreyfiúrræðis er að að bæta líkamlega heilsu eldra fólks en einnig stuðla að félagslegri vellíðan.

Meistaraflokkur í körfubolta

Meistaraflokkur í körfubolta heldur áfram að gera góða hluti og situr liðið nú í efsta sæti 2.deildar eftir sigur í öllum leikjum hingað til í mótinu. Liðið hefur verið að gera góða hluti og stefnan sett á að komast upp í 1.deild árið 2023. Birkir Alfons formaður meistaraflokks og Guðmundur Ingi þjáfari hafa unnið óeigingjarnt starf hjá félaginu og eiga hrós skilið fyrir þann frábæra árangur sem liðið hefur náð.

Knattspyrnudeild Þróttar

Árið 2022 spilaði meistaraflokkur Þróttar í fyrsta skipti í sögu félagsins í Lengjudeildinni. Brynjar Þór Gestson tók við liðinu af Eiði Ben og ljóst var að sumarið yrði erfitt verkefni. Liðið endaði í 12 sæti og því ljóst að við spilum í 2.deild næsta sumar. Uppbygging fyrir næsta tímabil var strax hafin og lítur liðið vel út fyrir næsta ár og er stemningin góð í hópnum og innan félagsins.

Íþróttamiðstöð

Í apríl 2022 tók félagið við umsjón á rekstri íþróttamiðstöðvar hér í Vogum. Var þetta stórt skref hjá félaginu og hefur rekstur gengið vel. Íþróttamiðstöðin er þar sem hjartað slær í bæjarfélaginu og koma íbúar þangað til að sækja fjölbreytta þjónustu. Hefur félaginu tekist vel til með markmið sín að auka þjónustu og lífga uppá húsið með Þróttaraandan að leiðarljósi.

Rekstur og fjárhagur

Þrátt fyrir að félagið sýni fram á hagnað fyrir árið 2022 að þá þarf félagið áfram að sýna ráðdeild og skynsemi í rekstri og gæta þarf þess að sníða sér stakk eftir vexti. Sveitarfélagið Vogar styrkti félagið um 6.850.000kr á árinu og kunnum við bæjarfélaginu og öðrum styrktaraðilum miklar þakkir fyrir stuðninginn á árinu.

Ársreikningur sýnir stærð Ungmennafélagsins en hefur það veltu uppá næstum 74 m.kr en þar af er knattspyrnudeild með um 31 m.kr veltu. Við erum stór og fyrirferðamikil í okkar samfélagi og ef til vill upplifa einhverjir okkur vera með frekju og tilætlunarsemi. En þegar standa þarf undir væntingum sem til okkar eru gerðar og sinna því mikilvæga starfi sem hér fer fram er það nauðsynlegt til að allt gangi upp. Mikilvægast er að við, félagsmenn Þróttar, stöndum saman og vinnum saman að framgangi félagsins. Þannig náum við okkar markmiðum félaginu til heilla.

Framtíðin

Þegar við lítum fram á vegin er margt spennandi á döfinni en einnig krefjandi verkefni sem takast þarf á við.

 

Í lok árs var fest kaup á sex rafíþróttastöðvum og rafíþróttadeild stofnuð. Hefur hún starfsemi á nýju ári og er gaman að fylgjast með þessum draum loks verða að veruleika. Spennandi verður að fylgjast með deildinni á nýju ári og vonumst við eftir að þetta muni slá í gegn hjá ungmennum í sveitarfélaginu. Vill ég nýta tækifærið og þakka Sveitarfélaginu Vogum fyrir rausnarlegt framlag þeirra til stofnunar á rafíþróttadeild Þróttar sem og öðrum sem lögðu verkefninu lið.

Félagið endurnýjaði umsókn sýna til að halda Landsmót 50+ árið 2024 og vonum við nú að sá draumur muni einnig rætast. Teljum við Vogana vera kjörin stað til að halda mótið og að samfélagið okkar og félagið sé klárt í að takast á við þetta skemmtilega verkefni.

Sjálfboðaliðum sem starfa fyrir félagið hefur fækkað eftir heimsfaraldur en á sama tíma eru kröfur sem samfélagið setur á félagið að aukast. Til þess að félagið nái að halda áfram á þeirri vegferð sem við erum í þá er það mikilvægt að við náum að fjölga í hópi sjálfboðaliða. Verður það eitt af okkar verkefnum á  árinu 2023.

 

 

Lokaorð

Nú þegar þessu stóra og viðburðarríka ári hjá félaginu er að ljúka er gaman að horfa tilbaka og sjá alla litlu og stóru sigrana sem félagið hefur náð á árinu. Þeim hefði ekki verið náð án okkar frábæru sjálfboðaliða sem starfa fyrir félagið og leggja dag og nótt í að skipuleggja og halda utanum ýmis verkefni. Fólk hefur unnið ötult starf í þágu félagsins og vonum við að það muni halda því áfram og ný andlit bætist við á nýju ári.

 

Stjórnarliðar sem hætta núna eftir gott starf hjá félaginu eru Gunnar Júlíus Helgason, Jóna Kristbjörg Stefánsdóttir og Katrín Lára Lárusdóttir. Langar mig að þakka þeim kærlega fyrir gott samstarf og þeirra framlag til félagsins.

Kveðja, Petra Ruth formaður UMFÞ.