Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2021

Aðalfundur KND -Þróttar Vogum fór fram í gærkvöldi – Breytingar urðu á stjórn.

Með | Fréttir

Aðalfundur KND fór fram í gærkvöldi.

Fram kom í skýrslu formanns að síðasta ár hafi verið skemmtilegt, lærdómsríkt og gefandi. Deildin fór í miklar aðhaldsaðgerðir fyrir sumarið. Ekki var hægt að halda lokahóf félagsins um haustið og varð félagið af miklum tekjum vegna áhorfendabanns og annara ástæðna tengt heimsfaraldri.

Mikil stemmning skapaðist á leikjum liðsins og besti árangur í sögu félagsins varð niðurstaðan. Hermann Hreiðarsson tók við af Brynjari Gestssyni í upphafi móts. 

Knd sér um rekstur á knattspyrnusvæðinu, félagsstarfið á laugardögum og meistaraflokk Þróttar í knattspyrnu. Einnig kom deildin að hinum ýmsu verkefnum tengt félaginu. Þrátt fyrir erfitt rekstrarár í miðjum heimsfaraldri skilaði deildin hagnaði um rúmar 70.þús kr. 

Breytingar urðu á stjórn: 

Haukur Harðarson bauð sig ekki fram aftur eftir tveggja ára setu sem formaður deildarinnar og var hann tvö ár áður sem stjórnarmaður hjá deildinni.

Gunnar J. Helgason bauð sig fram til formanns og var sjálfkjörin. 

Guðmann Rúnar Lúðvíksson kom inn sem nýr stjórnarmaður og Hannes Smárason var endurkjörin. Friðrik V. Árnason verður varamaður í stjórn. 

Sjálfboðaliðar, styrktaraðilar, Binni Gest, Haukur Harðarson, aðalstjórn fengu mikið þakklæti fyrir gott samstarf á síðasta ári. 

 

Modulus ehf. einn af bakhjörlum Þróttar til næstu tveggja ára. 

Með | Fréttir
Modulus ehf. einn af bakhjörlum Þróttar til næstu tveggja ára. 
 
Það er með stolti sem við Þróttarar tilkynnum nýjan styrktaraðila og mun merki Modulus vera á ermi keppnisbúningar til næstu tveggja ára. 
 
Jakob Helgi Bjarnason hefur verið að leita að skemmtilegum verkefnum að undanförnu sem gæti hentað starfsemi Modulus. „Við hjá Modulus höfum verið að leita að spennandi verkefnum að undanförnu og í einni af heimsóknum okkar til Voga ákvað ég að heimsækja Þrótt sem hefur mikið verið í sviðsljósinu að undanförnu fyrir sinn árangur og þá gleði sem hefur verið viðloðandi félagið. Okkur langar mikið að tengjast Vogunum og erum nú þegar byrjaðir að skoða lóðir undir nýbyggingar. Þetta er flott bæjarfélag, vel staðsett og gott fólk sem vinnur óeigingjarnt starf til þágu íþrótta í bænum“ sagði Jakob Helgi einn af eigendum Modulus ehf.
 
Modulus er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 2016 þegar tekið var við öllum vörum frá húseiningaverksmiðju BYKO-LAT, systurfélagi BYKO á Íslandi.  

Verksmiðjan framleiðir einingahús, annars vegar hefðbundnar timburveggeiningar og hins vegar módula sem eru fullfrágengin hús sem koma tilbúin á áfangastað.Hægt er að tengja saman tvo eða fleiri módula og reisa þar með allar gerðir húsa: parhús, raðhús, fjölbýli o.s.frv. Framleiðslutími er stuttur frá því að endanleg hönnun og efnisval liggur fyrir eða einungis um nokkrir mánuðir.

Á myndinni eru Marteinn Ægisson hjá Þrótti og Jakob frá Modulus.

Árleg bíóferð föstudaginn 5. mars – Foreldrafundir fara í gang fyrir stærri mót ársins á næstu dögum. Allar upplýsingar í frétt. 

Með | Fréttir

Föstudaginn 5. mars fer fram árleg bíóferð fyrir alla iðkendur Þróttar. 

 
Sambíó Reykjanesbæ og foreldrar sjá um samgöngur. 
Þjálfarar halda utan um skráningar og fara með iðkendum í bíó. 
 
Verð: bíómiði, miðst. popp og gos/safa á kr. 1.300,-  
640289-2529 0157-05-410088 
Greiða þarf fyrir 3. mars. 
Mynd: Raya og Síðasti Drekinn og hefst kl.17:15 – Mæting 16:45. 
 

Foreldrafundir fyrir komandi stærri mót ársins fara fram á næstu dögum. 

 
Þjálfarar eru á fullu að undirbúa foreldrafundi fyrir komandi stærri mót ársins. Hver fundur er áætlaður í 30 mínútur og verður óskað eftir tveimur til að halda utan um foreldraráð í hverjum flokki. Hlutverk foreldraráðsins er að skipuleggja hvert mót, virkja sem flesta foreldra, finna fararstjóra og halda utan um flokkinn. 
 

Minnum á mikilvægi þess að foreldri frá hverju barni mætir á fund. Fylgjast vel með öllum tilkynningum inná Sportabler. 

 
 
7. fl kk: Er í skoðun. 
7. fl kvk: Ákveðið að fara með þær á Símamótið. 
6. fl kk: Sem fyrr verður farið á Orkumótið í Eyjum. Skráning og staðfestingargjald frágengið. 
6. fl kvk: Er í skoðun. 
5. fl kk: Sem fyrr verður farið á N1 mótið Akureyri.Skráning og staðfestingargjald frágengið. 
5. fl kvk: Ákveðið að fara á TM mótið í Eyjum með fyrirvara um ákvörðun foreldra. Símamótið er til vara. Skráning og staðfestingargjald frágengið til Eyja. 
4. fl kk & kvk. Þátttaka í Íslandsmóti. 
Sund: Akranesleikar eru í skoðun. 
Júdó: Er í skoðun. 
 
ÁFRAM ÞRÓTTUR !!! 

Æfingar falla niður hjá fimmta bekk og yngri – Öskudagur – Allir sem mæta í búningi á milli 16:30 til 18:30 í íþróttamiðstöðina fá glaðning að gömlum sið !

Með | Fréttir

Íþróttamiðstöðin og Ungmennafélagið Þróttur verða með glaðning að gömlum sið fyrir alla káta krakka sem mæta í búningi á milli 16:30 og 18:30 á morgun.  

Foreldrum er ekki heimilt að koma með börnunum inn í íþróttahúsið. Krakkanir þurfa ekki að syngja,  er það gert til að koma í veg fyrir raðir. Eitt nammi á mann og má aðeins koma einu sinni í heimsókn.

Æfingar hjá fimmta bekk og yngri falla niður vegna öskudags. Þar sem fimmti bekkur eru að æfa með eldri, að sjálfssöððu er þeim velkomið að mæta á æfinguna. 

Foreldrar, hvetjum krakkana til að taka þátt í þessum skemmtilega degi og förum eftir þeim tilmælum sem eru að finna á covid.is vegna öskudagsins.

Góða skemmtun.

 

Þróttarar hófu 3. deildina með krafti

Með | Fréttir, Körfubolti

Þór Akureyri (B) komu í heimsókn. Jafn var á öllum tölum í fyrri hálfleik bæði lið skiptust á að vera með forystu. (43:44)

Þróttarar tóku yfir leikinn strax í þriðja leikhluta með flugeldasýningu og öruggur 98:66 sigur í höfn.

Róbert Smári Jónsson hóf leikinn með krafti og skoraði 7 stig af fyrstu 11 stigum Þróttara í leiknum.

Menn leiksins: Arnór Ingvason skoraði 26 stig. Birkir Örn Skúlason skoraði 18 stig og 11 fráköst. Brynjar Bergmann Björnsson 21 stig og átta stoðsendingar.

Þeir fengu allir pítusósu að leik loknum.

Myndir/Jóna Kristbjörg og Guðmann Rúnar


Þróttur mætir Njarðvík í fyrstu umferð 2. deildar – KV í bikarnum.

Með | Fréttir

Mótanefnd KSÍ hefur birt drög að leikjum í 2. deild karla keppnistímabilið 2021. Samhliða því var dregið í fyrstu tvær umferðir í Mjólkurbikarnum.

2. deild karla hefst með tveimur leikjum 7. maí, en fyrstu umferð lýkur með fjórum leikjum degi síðar, 8. maí. Þess má geta að Suðurnesjaslagur verður í fyrstu umferð, en Njarðvík tekur á móti Þrótti V. á Rafholtsvellinum.

Fyrsta umferð 2. deildar karla

Haukar – Reynir S.

Njarðvík – Þróttur V.

Kári – KF

ÍR – Leiknir F.

Fjarðabyggð – Völsungur

KV – Magni

Í fyrstu umferð í Mjólkurbikar karla mætast t.a.m. Selfoss og Kórdrengir, en liðin enduðu í tveimur efstu sætunum í 2. deild karla í fyrra og leika því í Lengjudeildinni í sumar.

Þróttarar heimsækja lið KV í bikarnum.

Fös. 9. 4. 2021 19:15KR-völlur

 

 

 

Stjórn UMFÞ hefur sett saman reglugerð fyrir viðurkenningar hjá félaginu – Reglugerð tekur gildi í dag og skal endurskoðuð á hverju ári.

Með | Fréttir

Á stjórnarfundi aðalstjórnar þann 14. janúar sl. ákvað stjórn UMFÞ að setja saman reglugerð til að heiðra félagsmenn og aðra sem starfa fyrir félagið. 

Sjá bókun stjórnar. „Stjórn félagsins hefur sett saman reglugerð fyrir viðurkenningar innan félagsins og skal reglugerðin endurskoðuð árlega. Á næstu dögum verður reglugerðin kynnt á heimasíðu félagsins“

Reglugerð fyrir viðurkenningar hjá UMFÞ. Skrásett 14. janúar 2021. 

 

Val á íþróttamanni ársins eða Þróttara hjá Ungmennafélaginu Þrótti mun fara fram á tímabilinu 1. desember – 31. janúar ár hvert. Sá aðili sem valinn er íþróttamaður ársins hlýtur til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar. Aðalstjórn tekur saman afrek íþróttamanna í samstarfi við þjálfara og aðrar deildir félagsins.

 

Allir iðkendur innan félagsins sem vinna til Íslandsmeistaratitils eða keppa fyrir hönd Íslands fá viðurkenningu.

 

Heiðursfélaga má kjósa og skal þeim afhent heiðursmerki Þróttar. Heiður þessi er sá æðsti er félagið veitir. Kosning heiðursfélaga skal fara fram á stjórnarfundi aðalstjórnar.

Eftirfarandi heiðursmerki skulu veitt með samþykki aðalstjórnar:

Gullmerki UMFÞ fyrir frábær störf í þágu félagsins en þó aldrei fyrr en eftir 20 ára starf eða keppni fyrir félagið.

Silfurmerki UMFÞ með fyrir 15 ára frábært starf eða keppni fyrir félagið.

Bronsmerki UMFÞ fyrir 10 ára starf eða keppni fyrir félagið.

Sérstök þakkarviðurkenning sem aðalstjórn leyfist að veita, ef hún telur ástæðu til.

Einnig má bronsmerki vera veitt til erlendra eða innlendra aðila sem hafa starfað í þágu félagsins ef aðalstjórn finnst ástæða vera til.

Aðlstjórn Þróttar getur sæmt félagsmenn og iðkendur gull, silfur eða bronsmerki félagsins þegar sérstök ástæða er til en er sú ákvörðun þó háð meirihluta samþykkis aðalstjórnar.

Starfs- og keppnisaldur skal miðaður við 16 ára aldur.

 

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar – Vogabæjarhöllin.

Með | Fréttir

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar í félagsherbergi UMFÞ kl.18:30 Vogabæjarhöllinni.

 

Samkomutakmarkanir: Þeir félagar sem vilja fylgjast með og taka þátt í fundinum þurfa að senda tölvupóst á throttur@throttur.net fyrir kl. 13:00 fimmtudaginn 25. feb. Í póstinum þarf að koma fram fullt nafn og kennitala.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

-Formaður félagsins setur fundinn

-Kosnir eru fundarstjóri og fundarritari

-Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram

-Skýrsla stjórnar

-Ársreikningur 2020 lagður fram til samþykktar

-Kosning formanns og stjórnarmeðlima

-Ákveðið félagsgjald

-Önnur mál

 

Látum íþróttamál í Sveitarfélaginu Vogum okkur varða. Sýnum samstöðu og höldum áfram að efla gott starf, það getum við gert í sameiningu. Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á að starfa í stjórn að senda póst á throttur@throttur.net

Allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald fyrir árið 2020 eru með atkvæðisrétt á fundinum.

Aðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar Vogum fer fram miðvikudaginn 24. febrúar nk.

Með | Fréttir, UMFÞ

Aðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar verður haldinn miðvikudaginn 24. febrúar klukkan 18:30 og fer fram í Vogabæjarhöllinni í félagsherbergi Þróttar.

Knattspyrnudeild Þróttar rekur meistaraflokk félagsins í knattspyrnu, Getraunadeild félagsins og kemur að hinum ýmsu verkefnum í samstarfi við aðalstjórn félagsins.

Samkomutakmarkanir: Þeir félagar sem vilja fylgjast með og taka þátt í fundinum þurfa að senda tölvupóst á throttur@throttur.net fyrir kl. 13:00 miðvikudaginn 24. feb. Í póstinum þarf að koma fram fullt nafn og kennitala.

Dagskrá fundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
4. Kosið í stjórn.
5. Önnur mál.

Þeir sem hafa áhuga á að starfa í stjórn er bent á að hafa samband við starfsmann Þróttar í síma 892-6789 eða formann deildarinnar, Hauk Harðarson í síma 777-0491.

Þrír eru í stjórn deildarinnar og einn varamaður.
Vonumst til að sjá sem flesta !!!

Kveðja, stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar.