Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2021

Aðalfundur UMFÞ fór fram á dögunum – Petra Ruth áfram formaður Þróttar Vogum og óbreytt stjórn. 

Með | Fréttir

Petra Ruth Rúnarsdóttir var endurkjörin formaður Þróttar í Vogum á aðalfundi félagsins á fimmtudag í síðustu viku. Þetta er þriðja kjörtímabil Petru. 

Félagið ætlar sér jafnframt stóra hluti í framtíðinni. Þar á meðal er að sækja um Landsmót UMFÍ 50+ árið 2022. 

Auk Petru eru í stjórn Þróttar Vogum þau Katrín Lára Lárusdóttir, Reynir Emilsson, Jóna K. Stefánsdóttir og Davíð Hanssen. Varamenn eru Sólrún Ósk Árnadóttir og Birgitta Ösp Einarsdóttir. 

 Guðmundur Stefán Gunnarsson íþrótta og tómstundafulltrúi Voga kom inná í ræðu sinni að Ungmennafélagið Þróttur skiptir samfélagið miklu máli í Vogum, félagið væri að standa sig frábærlega í sínum störfum. 

Tinna Hallgrímsdóttir tók að sér fundarstjórn og Katrín Lárusdóttir fundarritara. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. 

Fram kom í ársreikningi félagsins að hagnaður varð af rekstri félagsins 550.786 og eigið fé var um árslok 821.563. 

Ársskýrsla 2020

Áhrif Covid á starfsemi félagsins 

Rétt eins og aðrir í samfélaginu hefur ástandið haft veruleg áhrif á starfsemi okkar á árinu. Það hefur reynt verulega á þolinmæði og þrautseigju þeirra sem starfa hjá Þrótti, bæði stjórnendur og iðkendur. Frá 15.mars til 4. maí stöðvaðist allt íþróttastarf og þurftum við að fella niður fjölmargar skipulagðar æfingar í hverri viku sem í kjölfarið hafði áhrif á alla iðkendur í skipulögðu íþróttastarfi hjá félaginu. Það var reynt eftir fremsta megni að sinna iðkendum félagsins með sem bestum hætti. Þjálfarar sendu iðkendum heimaæfingar frá fyrsta degi lokunar. Strax í upphafi var ljóst að tekjubresturinn yrði einhver og fjárhagstjónið stórt. Leitað var til starfsfólks, þjálfara og annara innan félagsins að taka á sig tímabundnar skerðingar. Það er ekki sjálfsagður hlutur en okkar frábæra fólk mætti þessum aðstæðum með miklum skilning og viljum við þakka þeim fyrir það. Til að koma til móts við iðkendur var framlengt tímabilið í sundi, júdó, knattspyrnu og þreki. Sund og júdó átti að ljúka 30.maí en var framlengt til 19. júní og knattspyrnan var framlengt frá 30.ágúst til 15.september. Fjölskyldurnar tóku einnig á sig skellinn og 90% foreldra óskaði ekki eftir endurgreiðslu æfingagjalda. Það var okkur mjög mikilvægt til að geta haldið starfinu gangandi og sýnir hversu mikilvægt það er í íþróttum og æskulýðsstarfi að standa saman vörð um börnin og þeirra starf. Við sendum öllum okkar foreldrum miklar þakkir fyrir stuðninginn. Einnig ber að þakka okkar frábæru þjálfurum fyrir sitt óeigingjarna starf og þann metnað sem þeir leggja í sína vinnu. Þeirra starf er mikilvægur hluti af því forvarnarstarfi sem félagið sinnir. Bakslag kom í faraldurinn í lok júlí og aftur þurfti að stöðva íþróttastarf 3.október þangað til í byrjun desember. Eins og alltaf fórum við reglulega yfir stöðuna og höguðum starfsemi í samræmi við nýjustu ráðleggingar stjórnvalda hverju sinni. Allt okkar fólk sýndi stöðunni skilning og fundum við fyrir mikilli samstöðu innan okkar liðs og liðið okkar stóð sig glæsilega. Fjölmargir viðburðir féllu niður vegna ástandsins og fastar fjáraflanir sem hafa gefið vel af sér þurftu frá að hverfa. Við misstum nokkur fyrirtæki frá okkur en fengum nokkur minni til okkar í staðinn. Félagið fékk myndarlega styrki frá ÍSÍ, KSÍ og tókst okkur að sækja um í hina ýmsu sjóði til að bregðast við tekjubresti. Eins og staðan er í dag höfum við miklar áhyggjur af brottfalli iðkenda úr íþróttum í kjölfar faraldursins. Skráningar skiluðu sér inn seinna en venjulega í haust og teljum við það vera mögulega vegna þess að forráðamenn vildu fylgjast með þróun faraldar. Æfingar hafa ekki Ársskýrsla 2020 farið fram með hefðbundnum hætti og það hefur áhrif á okkar iðkendur. Þjálfarar gátu ekki haft kynningu á starfinu í skólanum eins og hefur verið gert seinustu ár og því erfiðara að ná til krakkana. Við viljum því hvetja foreldra að halda áfram að vera með okkur í liði og hvetja krakkana til að mæta á æfingar þar sem íþróttaiðkun er mikilvæg fyrir líkamlega og andlega líðan barnanna okkar. 

Hreyfivika UMFÞ, UMFÍ og Sveitafélagsins Voga 

UMFÍ stendur fyrir árlegri hreyfiviku í lok maí um land allt og hvetur íþróttafélög til að taka þátt og létum við okkar ekki eftir liggja. Við buðum uppá fjölmarga viðburði fyrir bæjarbúa og má þar nefna gönguferðir, fyrirlestra og margt fleira. Markmið hreyfivikunar er að fá fólk til að stunda fjölbreytta hreyfingu og hlú að eigin heilsu í skemmtilegum hópi fólks. Í haust stóð svo til að halda flotta hreyfiviku í samstarfi við Sveitafélagið Voga en vegna bakslags í faraldrinum þurfti því miður að aflýsa henni. 

Vogaþrek og Unglingahreysti 
 
Vogaþrek Þróttar heldur áfram að festa sig í sessi og eru í kringum 30 manns sem æfðu með okkur árið 2020. Vegna Covid þurfti að fella niður hina árlegu góðgerðaræfingu Vogaþreks en stefnt er að því að endurtaka leikinn fljótlega á nýju ári. Annað árið í röð fór Unglingahreysti fram en það eru þrektímar fyrir elstu bekki grunnskólans. Þetta framtak er til að koma til móts við þau ungmenni sem vilja stunda hreyfingu en hafa ekki fundið sig í þeim greinum sem nú þegar eru í boði hjá félaginu. Námskeiðið miðast að því að kenna grunntækni í ýmsum æfingum auk þess sem kynnt er fyrir krökkunum ýmis fjölbreytt hreyfing. 
 
Íþróttaskóli barna 
 
Líkt og fyrri ár hefur íþróttaskólinn verið vinsæll og fjölmörg börn mæta spennt alla laugardaga með foreldrum og systkynum. Foreldrar ungra barna utan Voga hafa einnig verið að nýta sér þessa frábæru þjónustu enda allir velkomnir.  
 
Ævintýraskóli Þróttar 
 
Ævintýraskóli Þróttar fór fram í sumar í annað skipti. Með námskeiðinu viljum við hvetja unglinga í sveitafélaginu til að lifa heilbrigðum lífsstíl og stunda íþróttir, útivist og aðra afþreytingu sem í boði er í Vogum. Á námskeiðinu var meðal annars farið í skipulagðar ferðir um sveitafélagið og ýmsir útivistar og afþreyingarmöguleikar skoðaðir. Vel tókst til með verkefnið og stefnir félagið á að halda úti námskeiði í sumar. Sveitafélagið útvegaði mannskap í verkefnið og þökkum við þeim fyrir þeirra aðstoð. 
 
Júdó 
 
Jana Lind Ellertsdóttir tók við af Guðmundi Stefáni Gunnarssyni síðast liðið haust og viljum við þakka Gumma fyrir samstarfið. 
 
Sund 
 
Sólrún Ósk Árnadóttir tók við sundinu í haust þegar Rebekka Magnúsdóttir lét af störfum og þökkum við Rebekku fyrir samstarfið. Áður fyrr var það fastur liður í sundinu að fara á ÍAESSO mótið á Akranesi og eiga margir eldri sundgarpar hjá Þrótti góðar minnigar þaðan. Við erum því ánægð með að eftir nokkra ára hlé tók félagið aftur þátt í því móti sem nú kallast Akranesleikarnir. Stefnan er tekin á að fara þanngað aftur á þessu ári og er undirbúningur þegar hafin fyrir Akranesleikana 2021. 
 
Knattspyrna 
 
Þróttur heldur úti yngriflokkastarfi í knattspyrnu í sjö manna bolta. Það er stefna félagsins að taka þátt í öllum stærri sumarmótum. Undanfarin ár höfum við þurft að leggja mikið á okkur til að halda iðkendum innan félagsins og ekki missa þá til annara stærri félaga sem stutt er að sækja í. Í svona litlu sveitafélagi skiptir hver iðkandi máli þegar halda á úti hópíþrótt og hefur félagið verið að reyna greina vandann og finna leiðir til að bregðast við. Forvarnargildi íþrótta er mun meira þegar börn æfa innan eigin sveitafélags með bekkjarfélögum og vinum heldur en þegar þau leita annað og því er þetta mikið áhyggjuefni. Fótboltinn er í dag heilsársíþrótt og aðstaða til iðkunnar á sumrin er frábær hér í Vogum en ekki góð á veturnar. Viktor Ingi Sigurjónsson bættist í þjálfarahópinn en Eysteinn Sindri Elvarsson og Baldvin Júlíus Baldvinsson létu af störfum í haust og þökkum við þeim fyrir samstarfið. 
 
Sjálfboðaliðadagurinn 
 
Þriðja árið í röð hélt félagið uppá sjálfboðaliðadaginn. Ekki var hægt að bjóða sjálfboðaliðum í lamd og berneis eins og undanfarin ár. Því var ákveðið að keyra út glaðning til allra stærri sjálfboðaliða félagsins. Mikið álag hefur verið á sjálfboðaliðunum okkar þetta árið og viljum við þakka þeim fyrir þeirra mikilvæga og óeigingjara starf í þágu félagsins. Hvetjum við alla sem vilja taka þátt í skemmtilegu og gefandi starfi að bjóða sig fram sem sjálfboðaliða. Við bjóðum alla velkomna með bros á vör. 
 
Fjáraflanir 
 
Félagið heldur úti mörgum mikilvægum fjáröflunum. Þetta árið hefur verið mikill tekjubrestur í fjáröflunum vegna faraldursins. Fella þurfti niður kótilettukvöld Þróttar og Skyggnis, lokahóf, páskabingó og ljósa og nammisölu á fjölskyldudögum svo eitthvað sé nefnt. Einnig var áhorfendabann á mörgum heimaleikjum meistaraflokks í 2.deildinni í sumar og hafði það mikil áhrif á innkomu til aðalsjórnar og knattspyrnudeildar. Innan félagsins starfar öflugt foreldrafélag sem aðstoðar iðkendur við ýmsar fjáraflanir vegna móta og annara tilfallandi verkefna. Einnig hefur foreldrafélagið styrkt starfið á ýmsan hátt og til að mynda hefur foreldrafélagið gefið öllum iðkendum súkkulaði jóladagatal fyrir jólin og voru þessi jól engin undantekning. 
 
Styrktaraðilar 
 
Við eigum fjölmarga góða styrktaraðila að sem styrkja félagið og kunnum við þeim fyrirtækjum sem finna til samfélagslegrar ábyrgðar og styrkja okkar starf miklar þakkir fyrir stuðninginn. Aðrir einkaaðilar styrkja félagið með ýmsum hætti og er það þakkvert. 
 
Heimasíða, Nóri og Sportabler 
 
Lagt hefur verið mikið uppúr því að bæta ímynd félagsins síðustu árin. Nýja heimasíðan sem tekin var í notkun árið 2019 hefur reynst félaginu vel og erum við alltaf að verða betri í því að nota hana. Einnig var tekið í notkun Nóra- skráningarkefið í samstarfi við Greiðslumiðlun en það hefur gert skráningar iðkenda skilvirkari. Mætingakerfið Sporabler var tekið til notkunar til að auðvelda samskipti á milli þjálfara, iðkenda og foreldra, halda betur utan um mætingu á æfingar og minna á ýmsa viðburði. Það tekur tíma að venjast nýjum síðum og er stefnan að á þessu ári verði allir iðkendur Þróttar komnir í Sportabler. 
 
Íþróttamaður ársins í Vogum 
 
Hinn fertugi Andrew James Pew, eða Andy, var kjörinn íþróttamaður ársins í Vogum eftir frábæra frammistöðu í 2.deildinni í fyrra. Hann var fyrirliði Þróttar sem var tveimur stigum á eftir Selfossi í Lengjudeildarsæti þegar íslandsmótið var blásið af í haust. Meistaraflokkur knattspyrnudeildar Þróttar fékk einnig heiðursviðurkenningu fyrir frábæran árangur. Fjórði flokkur karla í knattspyrnu fékk hvatningarverðlaun fyrir góðan árangur á síðasta ári. Knattspyrnudeild Þróttar Knattspyrnudeild Þróttar hefur sinnt félagskaffi og öðrum verkefnum með miklum myndarskap frá árinu 2012 og verið með fjölmörg verkefni á sínum vegum. Meistaraflokkur Þróttar hefur náð frábærum árangri síðustu árin og vakti það mikla athygli þegar Hermann Hreiðarsson, einn af þekktari knattspyrnumönnum landsins tók við liðinu í upphafi móts. Liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í 1.deild árið 2021. Við erum stolt af strákunum okkar og þeim sem starfa í kringum liðið og hlökkum til að standa þétt við bakið á þeim í komandi verkefnum. 
 
Meistaraflokkar í körfubolta og blaki. 
 
Í haust var stofnaður meistaraflokkur í körfubolta sem spila mun í 3.deildinni undir merkjum Þróttar. Viku fyrir fyrsta leik var mótinu frestað út árið vegna Covid. En þeir munu koma sterkir til leiks og spila á nýju ári. Annað árið í röð var Þróttur með lið í blaki karla og kvenna. Karlaliðið spilar í efstu deild og þegar þetta er ritað situr liðið í áttunda sæti deildarinnar. Bæði þessi verkefni eru endurskoðuð árlega og eitt af þeim skilyrðum sem félagið setur fyrir samstarfinu er að bjóða ungum iðkendum félagsins uppá kynningu á þessum íþróttagreinum. 
 
Minningarorð 
 
Baldvin Hróar Jónsson fyrrum formaður Ungmennafélagsins Þróttar lést langt fyrir aldur fram þann 9.júlí síðastliðinn aðeins fertugur að aldri. Hróar sat í aðalstjórn UMFÞ samfleytt frá árinu 2016 til 2020 og sem formaður árin 2017 til 2019. Hróar var góður félagi sem lét sér annt um íþróttastarf barna í sveitarfélaginu og lagði sitt af mörgum til að gera gott starf enn betra. Ungmennafélagið Þróttur sendir eiginkonu, börnum, öðrum ástvinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur. 
 
Lokaorð 
 
Þrátt fyrir erfitt og krefjandi ár þá erum við þakklát fyrir 2020 þar sem það skildi eftir sig ómetanlega reynslu í bankann og komum við sterkari inní nýtt ár. Við ætlum okkur stóra hluti á árinu 2021. Við erum svo lánsöm að hjá félaginu starfa fjölmargir sem brenna fyrir félagið og sýna það í verki, hvort sem það er í sjálfboðaliðastarfi, stjórnarstörfum eða þjálfun. Það er enginn sem getur gert allt en það geta allir gert eitthvað og saman erum við að gera stórkostlega hluti. Við erum öll í sama liðinu. Í lokin langar okkur að þakka Sveitafélaginu Vogum fyrir þeirra framlag því án þeirra aðkomu væri ekki hægt að halda úti því góða starfi sem við sinnum. 
 

Með Þróttarakveðju, Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður. 

Aðalfundur KND -Þróttar Vogum fór fram í gærkvöldi – Breytingar urðu á stjórn.

Með | Fréttir

Aðalfundur KND fór fram í gærkvöldi.

Fram kom í skýrslu formanns að síðasta ár hafi verið skemmtilegt, lærdómsríkt og gefandi. Deildin fór í miklar aðhaldsaðgerðir fyrir sumarið. Ekki var hægt að halda lokahóf félagsins um haustið og varð félagið af miklum tekjum vegna áhorfendabanns og annara ástæðna tengt heimsfaraldri.

Mikil stemmning skapaðist á leikjum liðsins og besti árangur í sögu félagsins varð niðurstaðan. Hermann Hreiðarsson tók við af Brynjari Gestssyni í upphafi móts. 

Knd sér um rekstur á knattspyrnusvæðinu, félagsstarfið á laugardögum og meistaraflokk Þróttar í knattspyrnu. Einnig kom deildin að hinum ýmsu verkefnum tengt félaginu. Þrátt fyrir erfitt rekstrarár í miðjum heimsfaraldri skilaði deildin hagnaði um rúmar 70.þús kr. 

Breytingar urðu á stjórn: 

Haukur Harðarson bauð sig ekki fram aftur eftir tveggja ára setu sem formaður deildarinnar og var hann tvö ár áður sem stjórnarmaður hjá deildinni.

Gunnar J. Helgason bauð sig fram til formanns og var sjálfkjörin. 

Guðmann Rúnar Lúðvíksson kom inn sem nýr stjórnarmaður og Hannes Smárason var endurkjörin. Friðrik V. Árnason verður varamaður í stjórn. 

Sjálfboðaliðar, styrktaraðilar, Binni Gest, Haukur Harðarson, aðalstjórn fengu mikið þakklæti fyrir gott samstarf á síðasta ári. 

 

Modulus ehf. einn af bakhjörlum Þróttar til næstu tveggja ára. 

Með | Fréttir
Modulus ehf. einn af bakhjörlum Þróttar til næstu tveggja ára. 
 
Það er með stolti sem við Þróttarar tilkynnum nýjan styrktaraðila og mun merki Modulus vera á ermi keppnisbúningar til næstu tveggja ára. 
 
Jakob Helgi Bjarnason hefur verið að leita að skemmtilegum verkefnum að undanförnu sem gæti hentað starfsemi Modulus. „Við hjá Modulus höfum verið að leita að spennandi verkefnum að undanförnu og í einni af heimsóknum okkar til Voga ákvað ég að heimsækja Þrótt sem hefur mikið verið í sviðsljósinu að undanförnu fyrir sinn árangur og þá gleði sem hefur verið viðloðandi félagið. Okkur langar mikið að tengjast Vogunum og erum nú þegar byrjaðir að skoða lóðir undir nýbyggingar. Þetta er flott bæjarfélag, vel staðsett og gott fólk sem vinnur óeigingjarnt starf til þágu íþrótta í bænum“ sagði Jakob Helgi einn af eigendum Modulus ehf.
 
Modulus er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 2016 þegar tekið var við öllum vörum frá húseiningaverksmiðju BYKO-LAT, systurfélagi BYKO á Íslandi.  

Verksmiðjan framleiðir einingahús, annars vegar hefðbundnar timburveggeiningar og hins vegar módula sem eru fullfrágengin hús sem koma tilbúin á áfangastað.Hægt er að tengja saman tvo eða fleiri módula og reisa þar með allar gerðir húsa: parhús, raðhús, fjölbýli o.s.frv. Framleiðslutími er stuttur frá því að endanleg hönnun og efnisval liggur fyrir eða einungis um nokkrir mánuðir.

Á myndinni eru Marteinn Ægisson hjá Þrótti og Jakob frá Modulus.

Árleg bíóferð föstudaginn 5. mars – Foreldrafundir fara í gang fyrir stærri mót ársins á næstu dögum. Allar upplýsingar í frétt. 

Með | Fréttir

Föstudaginn 5. mars fer fram árleg bíóferð fyrir alla iðkendur Þróttar. 

 
Sambíó Reykjanesbæ og foreldrar sjá um samgöngur. 
Þjálfarar halda utan um skráningar og fara með iðkendum í bíó. 
 
Verð: bíómiði, miðst. popp og gos/safa á kr. 1.300,-  
640289-2529 0157-05-410088 
Greiða þarf fyrir 3. mars. 
Mynd: Raya og Síðasti Drekinn og hefst kl.17:15 – Mæting 16:45. 
 

Foreldrafundir fyrir komandi stærri mót ársins fara fram á næstu dögum. 

 
Þjálfarar eru á fullu að undirbúa foreldrafundi fyrir komandi stærri mót ársins. Hver fundur er áætlaður í 30 mínútur og verður óskað eftir tveimur til að halda utan um foreldraráð í hverjum flokki. Hlutverk foreldraráðsins er að skipuleggja hvert mót, virkja sem flesta foreldra, finna fararstjóra og halda utan um flokkinn. 
 

Minnum á mikilvægi þess að foreldri frá hverju barni mætir á fund. Fylgjast vel með öllum tilkynningum inná Sportabler. 

 
 
7. fl kk: Er í skoðun. 
7. fl kvk: Ákveðið að fara með þær á Símamótið. 
6. fl kk: Sem fyrr verður farið á Orkumótið í Eyjum. Skráning og staðfestingargjald frágengið. 
6. fl kvk: Er í skoðun. 
5. fl kk: Sem fyrr verður farið á N1 mótið Akureyri.Skráning og staðfestingargjald frágengið. 
5. fl kvk: Ákveðið að fara á TM mótið í Eyjum með fyrirvara um ákvörðun foreldra. Símamótið er til vara. Skráning og staðfestingargjald frágengið til Eyja. 
4. fl kk & kvk. Þátttaka í Íslandsmóti. 
Sund: Akranesleikar eru í skoðun. 
Júdó: Er í skoðun. 
 
ÁFRAM ÞRÓTTUR !!! 

Æfingar falla niður hjá fimmta bekk og yngri – Öskudagur – Allir sem mæta í búningi á milli 16:30 til 18:30 í íþróttamiðstöðina fá glaðning að gömlum sið !

Með | Fréttir

Íþróttamiðstöðin og Ungmennafélagið Þróttur verða með glaðning að gömlum sið fyrir alla káta krakka sem mæta í búningi á milli 16:30 og 18:30 á morgun.  

Foreldrum er ekki heimilt að koma með börnunum inn í íþróttahúsið. Krakkanir þurfa ekki að syngja,  er það gert til að koma í veg fyrir raðir. Eitt nammi á mann og má aðeins koma einu sinni í heimsókn.

Æfingar hjá fimmta bekk og yngri falla niður vegna öskudags. Þar sem fimmti bekkur eru að æfa með eldri, að sjálfssöððu er þeim velkomið að mæta á æfinguna. 

Foreldrar, hvetjum krakkana til að taka þátt í þessum skemmtilega degi og förum eftir þeim tilmælum sem eru að finna á covid.is vegna öskudagsins.

Góða skemmtun.

 

Þróttarar hófu 3. deildina með krafti

Með | Fréttir, Körfubolti

Þór Akureyri (B) komu í heimsókn. Jafn var á öllum tölum í fyrri hálfleik bæði lið skiptust á að vera með forystu. (43:44)

Þróttarar tóku yfir leikinn strax í þriðja leikhluta með flugeldasýningu og öruggur 98:66 sigur í höfn.

Róbert Smári Jónsson hóf leikinn með krafti og skoraði 7 stig af fyrstu 11 stigum Þróttara í leiknum.

Menn leiksins: Arnór Ingvason skoraði 26 stig. Birkir Örn Skúlason skoraði 18 stig og 11 fráköst. Brynjar Bergmann Björnsson 21 stig og átta stoðsendingar.

Þeir fengu allir pítusósu að leik loknum.

Myndir/Jóna Kristbjörg og Guðmann Rúnar


Þróttur mætir Njarðvík í fyrstu umferð 2. deildar – KV í bikarnum.

Með | Fréttir

Mótanefnd KSÍ hefur birt drög að leikjum í 2. deild karla keppnistímabilið 2021. Samhliða því var dregið í fyrstu tvær umferðir í Mjólkurbikarnum.

2. deild karla hefst með tveimur leikjum 7. maí, en fyrstu umferð lýkur með fjórum leikjum degi síðar, 8. maí. Þess má geta að Suðurnesjaslagur verður í fyrstu umferð, en Njarðvík tekur á móti Þrótti V. á Rafholtsvellinum.

Fyrsta umferð 2. deildar karla

Haukar – Reynir S.

Njarðvík – Þróttur V.

Kári – KF

ÍR – Leiknir F.

Fjarðabyggð – Völsungur

KV – Magni

Í fyrstu umferð í Mjólkurbikar karla mætast t.a.m. Selfoss og Kórdrengir, en liðin enduðu í tveimur efstu sætunum í 2. deild karla í fyrra og leika því í Lengjudeildinni í sumar.

Þróttarar heimsækja lið KV í bikarnum.

Fös. 9. 4. 2021 19:15KR-völlur

 

 

 

Stjórn UMFÞ hefur sett saman reglugerð fyrir viðurkenningar hjá félaginu – Reglugerð tekur gildi í dag og skal endurskoðuð á hverju ári.

Með | Fréttir

Á stjórnarfundi aðalstjórnar þann 14. janúar sl. ákvað stjórn UMFÞ að setja saman reglugerð til að heiðra félagsmenn og aðra sem starfa fyrir félagið. 

Sjá bókun stjórnar. „Stjórn félagsins hefur sett saman reglugerð fyrir viðurkenningar innan félagsins og skal reglugerðin endurskoðuð árlega. Á næstu dögum verður reglugerðin kynnt á heimasíðu félagsins“

Reglugerð fyrir viðurkenningar hjá UMFÞ. Skrásett 14. janúar 2021. 

 

Val á íþróttamanni ársins eða Þróttara hjá Ungmennafélaginu Þrótti mun fara fram á tímabilinu 1. desember – 31. janúar ár hvert. Sá aðili sem valinn er íþróttamaður ársins hlýtur til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar. Aðalstjórn tekur saman afrek íþróttamanna í samstarfi við þjálfara og aðrar deildir félagsins.

 

Allir iðkendur innan félagsins sem vinna til Íslandsmeistaratitils eða keppa fyrir hönd Íslands fá viðurkenningu.

 

Heiðursfélaga má kjósa og skal þeim afhent heiðursmerki Þróttar. Heiður þessi er sá æðsti er félagið veitir. Kosning heiðursfélaga skal fara fram á stjórnarfundi aðalstjórnar.

Eftirfarandi heiðursmerki skulu veitt með samþykki aðalstjórnar:

Gullmerki UMFÞ fyrir frábær störf í þágu félagsins en þó aldrei fyrr en eftir 20 ára starf eða keppni fyrir félagið.

Silfurmerki UMFÞ með fyrir 15 ára frábært starf eða keppni fyrir félagið.

Bronsmerki UMFÞ fyrir 10 ára starf eða keppni fyrir félagið.

Sérstök þakkarviðurkenning sem aðalstjórn leyfist að veita, ef hún telur ástæðu til.

Einnig má bronsmerki vera veitt til erlendra eða innlendra aðila sem hafa starfað í þágu félagsins ef aðalstjórn finnst ástæða vera til.

Aðlstjórn Þróttar getur sæmt félagsmenn og iðkendur gull, silfur eða bronsmerki félagsins þegar sérstök ástæða er til en er sú ákvörðun þó háð meirihluta samþykkis aðalstjórnar.

Starfs- og keppnisaldur skal miðaður við 16 ára aldur.

 

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar – Vogabæjarhöllin.

Með | Fréttir

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar verður haldinn fimmtudaginn 25. febrúar í félagsherbergi UMFÞ kl.18:30 Vogabæjarhöllinni.

 

Samkomutakmarkanir: Þeir félagar sem vilja fylgjast með og taka þátt í fundinum þurfa að senda tölvupóst á throttur@throttur.net fyrir kl. 13:00 fimmtudaginn 25. feb. Í póstinum þarf að koma fram fullt nafn og kennitala.

 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

-Formaður félagsins setur fundinn

-Kosnir eru fundarstjóri og fundarritari

-Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram

-Skýrsla stjórnar

-Ársreikningur 2020 lagður fram til samþykktar

-Kosning formanns og stjórnarmeðlima

-Ákveðið félagsgjald

-Önnur mál

 

Látum íþróttamál í Sveitarfélaginu Vogum okkur varða. Sýnum samstöðu og höldum áfram að efla gott starf, það getum við gert í sameiningu. Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á að starfa í stjórn að senda póst á throttur@throttur.net

Allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald fyrir árið 2020 eru með atkvæðisrétt á fundinum.

Aðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar Vogum fer fram miðvikudaginn 24. febrúar nk.

Með | Fréttir, UMFÞ

Aðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar verður haldinn miðvikudaginn 24. febrúar klukkan 18:30 og fer fram í Vogabæjarhöllinni í félagsherbergi Þróttar.

Knattspyrnudeild Þróttar rekur meistaraflokk félagsins í knattspyrnu, Getraunadeild félagsins og kemur að hinum ýmsu verkefnum í samstarfi við aðalstjórn félagsins.

Samkomutakmarkanir: Þeir félagar sem vilja fylgjast með og taka þátt í fundinum þurfa að senda tölvupóst á throttur@throttur.net fyrir kl. 13:00 miðvikudaginn 24. feb. Í póstinum þarf að koma fram fullt nafn og kennitala.

Dagskrá fundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar.
4. Kosið í stjórn.
5. Önnur mál.

Þeir sem hafa áhuga á að starfa í stjórn er bent á að hafa samband við starfsmann Þróttar í síma 892-6789 eða formann deildarinnar, Hauk Harðarson í síma 777-0491.

Þrír eru í stjórn deildarinnar og einn varamaður.
Vonumst til að sjá sem flesta !!!

Kveðja, stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar.