Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2018

Ársskýrsla UMFÞ.

Með | UMFÞ

Aðalfundur Þróttar fór fram í gærkvöldi.

Ungmennafélagið Þróttur var stofnað árið 1932 og varð félagið 85 ára þann 23. október 2017. Félagið er eitt fárra félaga á landinu með beina aðild að UMFÍ. Það getur verið flókið að starfa innan íþróttafélags og er oft erfitt að manna stöður innan félaganna. Sveitarfélagið Vogar hefur á síðustu árum tekið miklum breytingum með fjölgun íbúa og er oft erfitt að snúa sér frá sínu gamla félagi til að fara að styðja nýtt félag. Margir þeirra sem koma að starfinu hjá Þrótti hafa stutt önnur félög áður. Við getum því verið mjög stolt af árangri okkar þar sem okkur hefur tekist að byggja upp gott starf sem allir geta verið stoltir af. Auk þess erum við farin að sjá aðra kynslóð Þróttara koma til starfa hjá félaginu, aðilar sem hafa verið Þróttarar allt sitt líf. Félagið hefur vaxið og dafnað síðustu ár, velta og umsvif hafa líklega aldrei verið meiri en á síðastliðnu ári. Við eigum sífellt fleiri Þróttara sem eru að standa sig í sínum greinum og eru félaginu ætið til sóma.

 

 

Ég vil þakka öllum Þrótturum, iðkendum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum sérstaklega fyrir þeirra framlag því án þeirra væri starfsemin ekki eins glæsileg og raun ber vitni. Það er alls ekki sjálfgefið að fólk gefi sér tíma til sjálfboðastarfa og það ber því að þakka.

 

 

Afkoma UMF. Þróttar á árinu 2017 var góð. Þetta er flott framhald af árinu 2016 þar sem einnig var góður rekstur hjá félaginu. Fjárhagsstaða félagsins er traust og félagið er skuldlaust, við erum vel í stakk búin til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Hjá íþróttafélögum er það markmið að halda sér réttu megin við núllið, það er hins vegar staðreynd að reksturinn getur verið mjög sveiflukenndur og afkoman getur sveiflast mikið á milli ára. Við verðum að geta mætt slíkum sveiflum og lítum við á það sem eitt af meginverkefni aðalstjórnar félagsins að takast á við slíkar sveiflur og halda rekstri félagsins í jafnvægi.

 

 

Eins og komið var inn á þá eru meginverkefni aðalstjórnarinnar fjármál félagsins í heild, stefnumótun og samræming á starfseminni. Aðstöðumál félagsins hafa einnig tekið mikinn tíma á síðustu árum þar sem við viljum iðkendum okkar það besta. Áhugi á starfi félagsins hefur vaxið mikið og er sífellt að vaxa. Ég vil hvetja alla til stuðnings við iðkendur okkar þar sem hann er svo ómetanlega mikilvægur fyrir iðkendur sem og þá sem vinna fyrir félagið.

 

 

 

Íþróttaskóli barna á laugardögum hefur tekið miklum breytingum til hins betra. Ráðnir voru reynslumiklir leiðbeinendur og hefur það skilað sér í mikilli aukningu þátttakenda.

 

 

Sundstarfið er í farsælum farvegi hjá okkur. Iðkendum fjölgaði all verulega haustið 2015 og æfa í dag 25 börn sund hjá Þrótti. Nýr þjálfari tók til starfa í haust og hefur staðið sig vel í áframhaldandi uppbyggingarstarfi sunddeildarinnar. Mikill kraftur er í öllum sem koma að sundinu. Ber þá helst að nefna þátttöku foreldra sem styðja mjög vel við börnin sín. Gríðarlega gott orð fer af deildinni og þá sérstaklega foreldrum sem láta vel í sér heyra af pöllunum.

 

 

 

Þróttur eignaðist Íslandsmeistara í júdó eftir nokkurra ára bið. Flestir Þróttarar þekkja sögu júdó í Vogunum enda fjölmargir titlar sem hafa skilað sér í hús. Því miður hefur júdóið átt undir högg að sækja síðustu ár. Færri iðkendur í júdóinu veldur því að greinin er rekin með tapi þrátt fyrir gott starf og þjálfara sem sinnir þessu af mikilli ástríðu. Í dag eru 20 iðkendur sem æfa júdó í tveimur aldursflokkum. Á síðastliðnum vetri var gerð tilraun með krílajúdó og heppnaðist það vel.

 

 

 

 

Mikill kraftur var í barna og unglingastarfinu í knattspyrnu á síðastliðnu ári. Þróttur hélt úti flokkum í 8. Flokki blandað, 7. flokki karla og kvenna, 6. flokki karla og 5. flokki karla og kvenna. Einnig var stofnað til samstarfs við RKV í 3. flokki kvenna og Reyni/Víði í 4. flokki karla.

 

 

 

Þróttarar tóku þátt í öllum stærri sumarmótum ársins og ber helst að nefna Orkumótið í Eyjum, N1 mótið á Akureyri, Norðurálsmótið á Skipaskaga og Símamót Breiðabliks.

 

 

Þróttarar réðu yfirflokkaþjálfara fyrir starfsárið 2016-17 og fjölgaði þjálfurum. Markmiðið var að efla starfið og bæta faglega þáttinn. Á sama tíma fækkaði iðkendum í knattspyrnu og varð það okkur mikið áfall að geta ekki nýtt okkur meðbyrinn í velgengni Íslands í karla- og kvennalandsliðunum okkar og var starfið lagt niður í haust. Haustið er að gefa okkur góð fyrirheit og hefur fjölgað að nýju í yngri flokkunum. Hvort það sé landsliðunum, árangri meistaraflokks Þróttar eða fjölgun barna í sveitarfélaginu að þakka vitum við ekki.

 

Leikjum yngri flokka Þróttar fjölgaði á Vogabæjarvelli síðustu ár. Því miður er erfitt að finna félagsmenn til að sinna dómgæslu í yngri flokkum. Meistaraflokkur félagsins og vallarstarfsmenn tóku verkefnið að sér og oft með stuttum fyrirvara. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. En dómaramál eru að verða vandamál hjá okkur sem okkur er ekki að takast að leysa. Til að reyna að sporna við þessu hefur Þróttur boðið upp á námskeið án endurgjalds. Vonumst við til að fleiri sjái sér fært að aðstoða félagið á komandi sumri við dómgæslu.

 

 

 

Þróttur hélt leiklistarnámskeið í byrjun árs og heppnaðist það vel. Ákveðið var að fara af stað með stofnun leiklistardeildar. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð á samfélagsmiðlum þá skilaði það sér ekki á stofnfund leiklistardeildar og því féll verkefnið um sjálft sig.

 

 

Þróttur Vogum ætlar sér stærri hluti í því að efla heilsu íbúa sveitarfélagsins og um leið fjölga félagsmönnum. Boðið var upp á badmintontíma íbúum sveitarfélagsins að kostnaðarlausu. Einnig auglýsti félagið eftir áhugasömum aðila þriðja árið í röð til að halda utan um skokkhóp en hafði ekki erindi sem erfiði.

 

 

Í byrjun árs var framkvæmdastjóra falið að finna þjálfara til að halda utan um stofnun þrekhóps. Fékk verkefnið heitið Vogaþrek og hefur verkefnið farið vel á stað og 18 bæjarbúar skráðir til leiks á öllum aldri. Ungmennafélagið er ekki bara fyrir börnin okkar. UMFÞ er líka fyrir fólk á öllum aldri.

 

 

Strandarhlaupið fór fram fimmta árið í röð. Góð þátttaka var í hlaupinu og kunnum við öllum þeim sjálfboðaliðum og styrktaraðilum miklar þakkir fyrir þeirra aðstoð í aðdraganda hlaupsins.

 

 

Þróttur Vogum hélt utan um Hverfaleika í tengslum við bæjarhátíð sveitarfélagsins. Heppnaðist verkefnið með miklum sóma.

 

 

Foreldrafélag Þróttar hefur legið niðri síðustu árin og var endurvakið síðla haust. Byrjunin lofar góðu. Einnig hafa verið haldnir foreldrafundir í öllum flokkum. Það var okkur mikið áhyggjuefni hversu marga foreldra vantaði í sumum greinum eða flokkum.

Foreldrahandbókin sem gerð var árið 2011 var haldið hátt á lofti á síðasta ári. Er þetta handbók þeirra sem koma að starfi Þróttar og þar eru að finna mörg svörin við ýmsum spurningum sem snerta félagið. Heimasíðan var einnig uppfærð og þar er hægt að fá allar upplýsingar varðandi þjálfara, æfingatíma og tryggingarmál iðkenda.

 

 

 

Mikill kraftur hefur verið í knattspyrnudeild Þróttar síðustu árin. Ber helst að nefna árangur Þróttar í 3. deild sem tryggði þeim sæti deild ofar 2018. Einnig hefur deildin rekið félagsstarf á laugardögum með miklum sóma. Árið 2016 fékk Þróttur framlag úr EM-sjóði KSÍ að upphæð 3.014.000kr. Knattspyrnudeild Þróttar sendi inn formlegt erindi og óskaði eftir því að fá helming EM framlagsins til tækjakaupa vegna Vogabæjarvallar.

 

 

 

 

Framkvæmdastjóri félagsins er eins og áður Marteinn Ægisson, en hann hefur einnig sinnt daglegum rekstri, fjármálastjórn félagsins undanfarin ár og hefur staðið sig vel. Ber helst að verkefnum hefur fjölgað frá því sem áður var og fer hann nýjar leiðir í leit af þjálfurum, er gríðarlega metnaðarfullur fyrir félaginu, setur mikla pressu á sjálfan sig og þrátt fyrir að hlutirnir gangi ekki alltaf upp þá heldur hann alltaf áfram.

 

 

Fjölgun stærri styrktaraðila hefur styrkt rekstur okkar og aðstoðað okkur mikið í baráttunni um að fá þjálfara til starfa hjá okkur. Það er ekkert leyndarmál að æfingagjöld dekka einungis 60 – 70 {cdb688d7baa72ee021e7b265d711b729104e5d4df76eac3e5a49644974b85ae4} launa þjálfara, því er mikilvægt að eiga góða styrktaraðila.

Hjá félaginu starfa frábærir þjálfarar og eru þeir: Arnar Már júdó, Margrét Lilja sund, Bryndís íþróttaskóli, Hólmfríður íþróttaskóli, Elvar Freyr knattspyrna, Helga Sif knattspyrna, Sólrún knattspyrna og Daníel með Vogaþrek. Kunnum við þeim öllum miklar þakkir fyrir gott starf. Þróttur Vogum bauð öllum þjálfurum félagsins að sækja þjálfaranámskeið. Einnig hélt félagið skyndihjálparnámskeið í Vogum fyrir alla þjálfara og foreldra úr öllum deildum félagsins. Félagið ætlar sér stærri hluti í fræðslumálum innan félagsins og stendur til að halda fararstjóranámskeið og standa fyrir fyrirlestrum fagaðila sem gæti mögulega styrkt okkar starfsemi.

 

 

 

Fulltrúar UMFÍ fóru til Danmerkur á síðasta ári til að taka út landsmót DHI. Fulltrúar UMFÞ í ferðinni voru formaður og framkvæmdastjóri Þróttar. Teljum við sem sitjum í stjórn Þróttar að mikilvægt sé að taka þátt í hreyfingunni og hefur félagið staðið sig vel í því átaki undanfarin ár.

 

 

 

 

Það eru mörg áhugaverð og skemmtileg verkefni framundan. Meginmarkmið og tilgangur félagsins er áframhaldandi uppbygging Þróttar, efling barna- og unglingastarfs í góðri samvinnu sjálfboðaliða, foreldrafélaga og næsta umhverfi félagsins í Vogum. Við viljum tryggja að börnin okkar hafi aðgang að góðri þjálfun í góðum félagsskap og hjá félagi sem þau og við erum stolt af. Þetta er besta forvarnarstarf sem til er. Við erum og eigum að vera stolt af félaginu okkar.

 

 

 

Að lokum langar mig að þakka Sveitarfélaginu Vogum fyrir þann mikla stuðning sem það veitir félaginu og öllum þeim styrktaraðilum sem styrkja félagið með fjárframlögum sem auðvelda okkur okkar starf. Án ykkar væri þetta ekki hægt.

 

 

 

Baldvin Hróar Jónsson
formaður UMF.Þróttar.

Formaður flytur sína fyrstu ræðu...

ÞRÓTTUR VANN FÓTBOLTA.NET MÓTIÐ Í C LIÐA.

Með | UMFÞ

Nú er Fótbolta.net lokið þennan veturinn. C-deildinni var að ljúka og þar með er öllum deildum mótsins lokið.

Í C-deild stóð Þróttur Vogum uppi sem sigurvegari eftir sigur á Kára í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum. Staðan var 2-2 eftir 90. mínútur. Ragnar Þór með bæði mörkin.

Vængir Júpiters enduðu í þriðja sæti eftir 3-2 sigur á Álftanesi á Bessastaðavelli, en úrslitaleikurinn og leikurinn um 3. sætið voru leiknir síðastliðinn föstudag.

C-deildin:
1. sæti: Þróttur V.
2. sæti: Kári
3. sæti: Vængir Júpiters
4. sæti: Álftanes
5. sæti: Tindastóll
6. sæti: Árborg
7. sæti: KV
8. sæti: Augnablik

Read more: http://www.fotbolti.net/news/18-02-2018/fotbolta-net-motid-svona-var-lokastadan-i-c-deild#ixzz57lwUabUl

 

Þróttur fótbolta.netmeistarar c. liða 2018

Vogaþrek Þróttar komið til að vera….

Með | UMFÞ

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna áframhaldandi samstarf við Daníel Fjeldsted. Skrifað var undir 2. ára samning í morgunsárið.

Daníel er góð viðbót í okkar frábæra þjálfarahóp sem fyrir er hjá félaginu. Daníel mun halda utan um lýðheilsumál hjá Þrótti með áherslu á 40. ára og eldri…

Það eru spennandi tímar í vændum og nýtt námskeið hefst 27. feb nk.

 

IMG_20180220_082435

 

 

 

Einhver að nota nafn Þróttar undir fölsku flaggi !

Með | UMFÞ

Instagram-síðan „Stuðningsmenn Þróttar Vogum“ er ekki á vegum félagsins. Kvartað hefur verið undan óprúttnum aðila sem hefur notfært sér nafn félagsins í þeim tilgangi til að sækja sér fylgjendur og áreitt fólk á netinu með ýmsum hætti.

Okkur þykir ákaflega miður að þetta hafi gerst og biðjum alla þá sem kunna hafa lent í klónum á þessum aðila að láta okkur eða lögreglu vita.

Foreldrar barna sem eru á instagram. Vinsamlegast takið umræðuna við ykkar börn.

Aðalfundur Þróttar fer fram í vikunni ….

Með | UMFÞ

Hvetjum alla félagsmenn til að fjölmenna og kynna sér starfið.

Lög félagsins

Heiti og aðsetur:

1. gr.

Félagið heitir Ungmennafélagið Þróttur. Heimili og varnarþing er í Sveitarfélaginu Vogum.

2. gr.

Félagið er aðili að Ungmennafélagi Íslands og er því í einu og öllu háð lögum þess og stefnuskrá.

Markmið:

3. gr

Markmið félagsins er að stuðla að eflingu hverskonar félagsstarfs, sem lýtur þroska félagsmanna og heill lands og þjóðar.

4. gr.

Tilgangi sínum hugsar félagið að ná t.d. með:

a) fundum þar sem fram fara fyrirlestrar, kappræður, umræður og fleira.

b) skemmtikvöldum þar sem fram fer dans, söngur, leiklist og fleira.

c) íþróttum, bæði innanhúss og utan.

d) útivist, ferðalögum, landgræðslu og skógrækt.

e) fjölbreyttu námskeiðshaldi og að standa fyrir ýmsum framkvæmdum er best þykja á hverjum tíma.

f) að vinna gegn tóbaksnotkun og neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Félagar:

5. gr.

Félagi getur hver sá orðið sem æskir þess og samþykkir að gangast undir lög og skyldur félagsins og er samþykktur af stjórn. Félagar teljast virkir, styrktar eða ævifélagar.

a) Virkir félagar teljast þeir sem sækja æfingar hjá félaginu og þeir sem eru í stjórn félagsins eða gegna öðrum trúnaðarstörfum innan þess.

b) Styrktarfélagar teljast þeir sem ekki iðka æfingar en vilja vera félagar og styrkja félagið ár hvert með fjárframlagi sem aðalstjórn ákveður.

c) Allir sem náð hafa 50 ára aldri geta gerst ævifélagar. Gjald ævifélaga er ákveðin upphæð í eitt skipti fyrir öll.

d) Telji félagi sig ekki hafa áhuga eða getu til að vera í félaginu ber honum við fyrsta tækifæri að senda félagsfundi eða stjórn skriflega úrsögn.

6. gr.

Ef félagi er uppvís af brotum gagnvart félaginu skal hann sæta refsingu sem stjórn sker úr um hver er. Þó má aldrei víkja neinum úr félaginu við fyrsta brot og ávalt skal vísa brotum til aðalstjórnar.

Skipulag félagsins:

7. gr.

Félagið er myndað af einstaklingum í íþrótta- og félagsdeildum og félagsmönnum utan deilda. Félagið hefur sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili þess milli aðalfunda.

Málefnum félagsins er stjórnað af:

1) Aðalfundi félagsins

2) Aðalstjórn félagsins

Aðalfundur félagsins:

8. gr.

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Skal hann haldinn eigi síðar en 1. mars ár hvert. Auglýsa skal aðalfund opinberlega, í staðarblöðum með 2 vikna fyrirvara. Aðalfundurinn telst lögmætur ef löglega er til hans boðað. Tillögum um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins sem síðar koma fram ef 2/3 hlutar viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.

9. gr.

Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála. Kosningar skulu vera skriflegar ef þurfa þykir. Séu atkvæði jöfn skal láta hlutkesti ráða.

Dagskrá aðalfundar:

10. gr.

Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:

1) Fundarsetning

2) Kosning fundarstjóra og fundarritara

3) Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram

4) Skýrsla aðalstjórnar lögð fram um starfsemi og framkvæmdir á liðnu ári

5) Endurskoðaðir reikningar liðins árs lagðir fram til umræðu og samþykktar

6) Inntaka nýrra félaga og úrsagnir

7) Lagabreytingar

8) Kosning formanns

9) Kosning 4 annarra stjórnarmanna

10) Kosning 2 varamanna

11) Kosning 2 endurskoðenda

12) Kosning nefnda

13) Ákveðið félagsgjald og ævifélagsgjald

14) Önnur mál

Aukaaðalfundur félagsins:

11. gr.

Aukaaðalfund félagsins má halda ef aðalstjórn álítur þess þörf eða ef ¼ atkvæðabærra félagsmanna á aðalfundi félagsins óska eftir því, enda tilkynni þeir um leið fundarefni það sem ræða á. Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað skv. 8. gr. þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur.

Atkvæðagreiðslur, kjörgengi og félagsgjöld:

12. gr.

Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða tillögur til breytinga á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.

Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað. Séu atkvæði jöfn við stjórnarkjör skal kosning endurtekin. Verði atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.

13. gr.

Allir skuldlausir félagsmenn 16 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnarstarfa, tillögurétt, atkvæðisrétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.

Aðalstjórn, verkefni:

14. gr.

Aðalstjórn félagsins hefur yfirumsjón með allri starfsemi félagsins og ber að efla félagið og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eigum félagsins og markar stefnu þess í meginatriðum. Stjórn félagsins setur starfsreglur fyrir deildir og aðildarfélög.

Aðalstjórn er heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem kemur fram fyrir hennar hönd í ýmsum málum sbr. ráðningarsamning.

15. gr.

Aðalstjórn félagsins skipa 5 menn auk 2 varamanna. Stjórnarmenn skipta með sér verkum þannig: Varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðastjórnandi. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi.

Stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn þannig að helmingur stjórnarmanna og varamanna sé í kjöri á hverjum aðalfundi.

16. gr.

Allir kjörnir stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu sitja stjórnarfundi. Stjórnarmaður sem ákveður að hætta í stjórn á tímabilinu skal segja af sér skriflega. Boði aðalmaður í stjórn ekki forföll á stjórnarfundi og mæti ekki á þrjá stjórnarfundi í röð skal varamaður taka sæti hans og næsti kjörni fulltrúi taka sæti varamanns.Varamenn hafa ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum nema þeir sitji sem aðalmenn.

Ef stjórnarmaður hættir störfum á fyrra ári kjörtímabils skal á næsta aðalfundi kjósa stjórnarmann til tveggja ára í hans stað.

Viðurkenningar, heiðursmerki:

17. gr.

Val á íþróttamanni ársins skal fara fram í lok hvers árs og krýning fara fram eigi síðar en í lok janúar. Hver deild tilnefnir 1 fulltrúa og leggur fram afrekaskrá máli sínu til stuðnings. Aðalstjórn félagsins velur síðan einn úr tilnefningunum sem íþróttamann ársins það árið. Sá aðili sem valinn er íþróttamaður ársins hlýtur til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar. Allir sem tilnefndir voru skulu hljóta viðurkenningarskjöl sem staðfesta tilnefninguna.

Stofnun nýrra deilda:

18. gr.

Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra deilda innan félagsins, skal aðalstjórn taka þær til athugunar. Samþykki aðalstjórn slíka ósk, skal hún sjá um undirbúning fyrir starfsemi greinarinnar, samningsgerð og fleira.

Fundir yfirþjálfara deilda og aðalstjórnar:

19. gr.

Vegna smæðar félagsins eru stjórnarmeðlimir tengiliðir í deildir félagsins svo málefni deilda eru rædd á fundum aðalstjórnar sem og aðalfundi félagsins.

20. gr.

Aðalstjórn félagsins skal eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári hverju halda fundi með yfirþjálfurum deilda þar sem hún leggur fram yfirlit um helstu verkefni sín. Yfirþjálfarar deilda skulu jafnframt skýra aðalstjórn frá starfsemi deildanna.

Foreldrafélög:

21. gr.

Foreldrafélög sem starfrækt eru innan hverrar greinar skulu halda aðalfund ár hvert. Skal hann haldinn fyrir 1.febrúar og skal til hans boða með minnst 5 daga fyrirvara og auglýsa hann á áberandi stöðum í sveitarfélaginu. Allir lögmætir félagar 16 ára og eldri hafa kjörgengi, málfrelsi og atkvæðisrétt á aðalfundi foreldrafélags. Dagskrá aðalfundar foreldrafélaga skal vera með sama sniði og lýst er í 10. grein. Vanræki foreldrafélag að halda aðalfund á lögákveðnum tíma skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

Samráðsnefnd:

22. gr.

Samráðsnefnd skal starfrækt innan félagsins. Í henni skulu eiga sæti 2 stjórnarmenn úr stjórn hvers starfandi foreldrafélags, 2 stjórnarmenn úr aðalstjórn, 1 þjálfari úr hverri grein og framkvæmdastjóri. Samráðsnefnd er ætlað að fjalla um þau verkefni sem fyrir liggja hjá hverju foreldrafélagi, fjáraflanir og hverskonar sameiginleg verkefni. Stærri málum skal vísa til aðalstjórnar til umfjöllunar og samþykktar.

Fjáraflanir:

23. gr.

Á fundum aðalstjórnar með yfirþjálfurum og formönnum foreldrafélaga skal tekin ákvörðun um að einstökum deildum verði veitt leyfi til fjáröflunar í nafni félagsins og ákveðin skipting ágóða af þeirri fjáröflun sem félagið í heild stendur að.

Spjaldskrár og reikningsár:

24. gr.

Reikningsár félagsins skal vera 1.1 til 31.12. ár hvert.

Úrsagnir, eignir, félagaslit:

25. gr.

Úrsagnir skal senda skriflega til aðalstjórnar UMFÞ. Öllum skyldum verður að vera fullnægt áður en úrsögn kemur til greina.

Búningur og merki félagsins:

26. gr.

Merki félagsins er kringlótt með hvítum grunni og appelsínugulri rönd á jaðrinum. Merkinu er skipt í fjóra jafna fleti sem innihalda eitt tákn hver í svörtu og bláu. Opin bók, merkir menningu, viti, merkir bókina Vitinn, fjallið Keilir, merkir staðsetningu félagsins og maður að stinga sér til sunds, merkir íþróttaiðkanir félagsins.

Keppnislitir félagsins skulu vera: Ráðandi appelsínugulur, svartur, hvítur og blár.

Lagabreytingar:

27. gr.

Engu má breyta í lögum þessum nema á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna sbr. 12. gr. Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 14 dögum fyrir aðalfund félagsins.

Gildistaka:

28. gr.

Lög þessi voru lögð fyrir aðalfund UMFÞ 14. apríl 2010 og samþykkt.

Lög þessi öðlast gildi þegar þau eru samþykkt á aðalfundi eða aukaaðalfundi og eru undirrituð af stjórn félagsins. Jafnframt falla eldri lög úr gildi. Lögin þurfa staðfestingar ÍSÍ og UMFÍ.

Fjáröflun hjá UMFÞ.

Með | UMFÞ

Foreldrafélagið fundaði á dögunum.

Ýmislegt í gangi hjá stjórninni og stendur til að selja páskaegg og flatkökur fyrir mánaðarmótin. Einnig að fara í heimabakaðar kleinur. Selja rekstrarvörur, salgæti, fisk, safna áheitum og safna dósum.

Það vantar ekki Þróttinn og fylgist með!

 

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar

Með | UMFÞ

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar verður haldinn fimmtudaginn 22. febrúar í Álfagerði kl.19:30.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

-Formaður félagsins setur fundinn
-Kosnir eru fundarstjóri og fundarritari
-Fundargerð síðasta aðalfundar lesin upp
-Skýrsla stjórnar
-Ársreikningur 2017 lagður fram til samþykktar
-Kosning formanns og stjórnarmeðlima
-Önnur mál

Látum íþróttamál í Sveitarfélaginu Vogum okkur varða. Sýnum samstöðu og höldum áfram að efla gott starf, það getum við gert í sameiningu. Við hvetjum alla þá sem hafa áhuga á að starfa í stjórn að senda póst á throttur@throttur.net Allir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald fyrir árið 2017 eru með atkvæðisrétt á fundinum.

Kveðja, stjórn UMFÞ.

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Þróttar…

Með | UMFÞ

Aðalfundur knattspyrnudeildar Þróttar verður haldinn mánudaginn 19. febrúar klukkan 20:00 og fer fram á Skrifstofu UMFÞ.

Knattspyrnudeild Þróttar rekur meistaraflokk félagsins í knattspyrnu, Getraunadeild félagsins og kemur að hinum ýmsu verkefnum í samstarfi við aðalstjórn félagsins.

Dagskrá fundar:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Kosið í stórn.
5. Önnur mál.

Þeir sem hafa áhuga á að starfa í stjórn er bent á að hafa samband við starfsmann Þróttar í síma 892-6789 eða formann deildarinnar, Friðrik V. Árnason í síma 869-0050 eða tölvupóst frival@simnet.is fyrir aðalfund deildarinnar.

Þrír eru í stjórn deildarinnar og einn varamaður.
Vonumst til að sjá sem flesta !!!

Kveðja, stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar.

Félagsmerki Þróttar til sölu…

Með | UMFÞ

27067686_1590256644385612_2542393717811717417_n 27073273_1590256717718938_1133708433634659005_nStyrkjum starf Þróttar Vogum með kaupum á merki félagsins.

Tilefni þess að fjölmargar kynslóðir hafa farið í gegnum starf Þróttar og félagið fagnaði 85. ára afmæli á dögunum var sett í framleiðslu barmmerki. Með kaupum á slíku merki geta ungir sem aldnir félagsmenn styrkt félagið sitt og borið merkið stoltir.

Aðeins til 200. merki og kostar merkið 2000kr.

Allir sem kaupa merki (búsettir í Vogum) Heimsending þriðjudaginn 13. feb.

Allir sem kaupa merki (búsettir utan Voga) Sendum í pósti miðvikudaginn 14. feb

Ath (Bætist við 220kr kostnaður)

Greiðsluseðill sendur í heimabanka.

Tökum á móti pöntunum í athugasemd.

Dæmi: Jón Sigurðsson 151265-3389 Safamýri 4, 104 Reykjavík.

 

Penninn á loft hjá Þrótti Vogum

Með | UMFÞ

Marteinn Urbancic og Örn R. Magnússon hafa framlengt samningum sínum við knattspyrnufélagið Þrótt Vogum til tveggja ára. Báðir komu þeir til félagsins á síðasta ári og áttu þeir stóran hlut í því að liðið komst upp um deild síðasta sumar en þeir skoruðu báðir mikilvæg mörk með liðinu í lokaleikjum þriðju deildarinnar.

Ragnar Þór Gunnarsson kom til Þróttar í nóvember og í vikunni var skrifað undir tveggja ára samning við hann. Jordan Tyler er nýr leikmaður Þróttar Vogum en hann hingað til lands í byrjun árs, Jordan er með reynslu úr annari deildinni og hefur spilað með liði Hattar frá Egilsstöðum og KF.

Þróttarar frá Vogum bjóða Ragnar Þór og Jordan velkomna í Þróttara fjölskylduna27173711_10155640540600141_296980509423800109_o 27164682_10155640540830141_968414732660262367_o 27624878_10155640540990141_6414618975048965677_o