Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar í Vogum var haldinn í Lionshúsinu í Vogum í gærkvöldi. Á fundinum var lögð fram skýrsla og reikningar. Nýr formaður var kjörinn Kristján Árnason en hann var varaformaður í fyrri stjórn. Miklar breytingar urðu á aðalstjórn félagsins. Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ var gestur á fundinum.
Fundurinn var ágætlega sóttur og voru umræður góðar. Mikil eftirvænting er með að taka nýjan knattspyrnuvöll í notkun í sumarbyrjun og verður vígsluleikurinn þann 25. maí n.k. þegar Þróttur mætir Víði í Garði. Mikið og gott barna og unglingastarf er hjá félaginu þar sem markmiðið er að hafa það gaman saman ásamt því að stunda heilbrigt líferni.
Á fundinum voru fulltrúar úr knattspyrnudeild og júdódeild félagsins ásamt fulltrúa meistaraflokks Þróttar í knattspyrnu með framsögu um starf sinna deilda. Var mjög áhugavert að hlusta á þá.
Mikil ánægja kom fram hjá fundarmönnum með þá ákvörðun stjórnar Þróttar á síðasta ári að lækka æfingagjöld og bjóða börnum og unglingum að stunda fleiri en eina íþróttagrein en borga aðeins eitt æfingagjald. Félagið hélt íþróttadag í október þar sem kynntar voru þær íþróttagreinar sem eru hjá félaginu. Tvær vikur á ári getur unga fólkið mætt á æfingar í hvaða íþróttagrein sem er sér að kostnaðarlausu.
Ný heimasíða hefur verið tekin í notkun og inn á henni má m.a. finna siðareglur, agareglur og eineltisáætlun félagsins. Ungmennafélagið Þróttur er 80 ára á árinu og er ætlunin að halda upp á þau tímamót með margvíslegum hætti.
Nýlegar athugasemdir